Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:41]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það eigi einmitt einnig við um svona ómerkilegan áróður eins og hv. þingmaður bendir á, að það eigi bara að svara honum efnislega og bæla hann niður þannig. Ég held að um leið og menn færu í einhverja ritskoðun þá gæti það jafnvel orðið mjög tvíbent.

Það sem mér þætti einnig áhugavert að fá fram í umræðunni, af því að við deilum báðir þeirri skoðun að það skiptir máli að hafa efni á boðstólum fyrir almenning sem heldur í heiðri íslenskunni, þá er ég ekkert endilega viss um að RÚV sé rétta leiðin. Þessi kassi og þessi umgjörð sem þarna er — væri ekki bara einfaldlega betra að fara þá leið að styrkja innlenda dagskrárgerð og jafnvel fara þá leið að styrkja innlenda þáttagerð, fréttaþáttagerð og gagnrýna blaðamennsku, og það allt, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti á að væri kannski möguleiki. Þegar RÚV er farið að soga svo mikið til sín af fjármunum og jafnvel farið að þrengja að hinum sem eru fyrir utan, hvernig svo sem þeir eru allir, hvort það er Fótbolti.net eða Bændablaðið, Morgunblaðið eða Viðskiptablaðið, sem er alfarið á móti ríkisstyrkjum en þiggur þá samt í tugmilljóna tali árlega, væri þá ekki áhugavert og væri ekki rétt — af því að ég heyri það á hv. þingmanni að hann er tilbúinn að skoða nýjar leiðir — í staðinn fyrir að vera alltaf að moka þennan skurð, að skoða einhverja nýsköpun í þessu burt séð frá afgreiðslu þessa máls?