Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[18:46]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér á þinginu í gær var mælt fyrir þessari þingsályktunartillögu sem er gríðarlega mikilvæg og mikilvægt að við, alveg frá upphafi innrásarinnar, ólöglegri innrás Rússa í Úkraínu, höfum gefið afdráttarlausar yfirlýsingar um það að við fordæmum innrásina og að hugur okkar stendur með Úkraínu.

Ekkert er okkur dýrmætara en börnin okkar og sú skelfilega staða að úkraínsk börn séu brottnumin, hvort sem þau eru ein í reiðileysi á hernumdum svæðum þar sem þau hafa orðið viðskila við fjölskyldu sína eða þeim rænt af munaðarleysingjaheimilum eða öðru slíku, er fullkomlega skelfileg staðreynd og við þurfum að sjálfsögðu að lýsa yfir andstöðu okkar á slíkum aðferðum. Það að brottnema barn frá sínum nánustu, líka frá sínu heimaríki, til þess að afmá þeirra trú og traust á það hvar og hver þau eru jafnast á við að eyða þeim einstaklingi. Það er í rauninni það sem er að gerast. Það er unnið að því að láta þessi börn og þau hafa lýst því sum hver sem hafa komist aftur til baka hvernig var unnið markvisst að því að láta þau gleyma eða afneita sínum uppruna. Þau voru mötuð með röngum upplýsingum um að þeirra þjóð, þeirra, fjölskylda, þeirra foreldrar hefðu gert eitthvað skelfilegt. Þetta er svo hryllilegt. Við búum hér í okkar örugga samfélagi hvar börnin okkar á öllum aldri, börn og ungmenni geta ferðast um, sótt sína skóla, leikið við sína vini, tekið þátt í samfélaginu, notið gæðastunda með sínum fjölskyldum. Því að alls staðar í heiminum eru börn eins. Börn eru bara börn. Þau eru varnarlaus, þau þurfa á okkur fullorðna fólkinu að halda og það er svo erfitt fyrir okkur að setja okkur í þessi spor að börnin okkar séu tekin og brottflutt úr landi. Þetta eru aðferðir sem þekkjast því miður í gegnum söguna víða um heim í stríðsástandi. Þetta er eitt af því sem einkennir styrjaldir alveg eins og kynferðisbrotum er beitt í styrjöldum sem vopni og þegar við horfum upp á lítil börn þá er eitthvað í okkur sem hafnar því að börnum sé teflt fram í slíkum tilgangi.

Mér finnst aðdáunarvert að þessi þingsályktunartillaga sé komin hér fram. Ég þakka utanríkismálanefnd og formanni hennar sérstaklega fyrir að hafa komið þessu hér á dagskrá og við í þingflokki VG stöndum heils hugar á bak við þessa þingsályktun.