Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[18:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar líka að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir að leggja þetta mikilvæga mál hér fram. Það er eiginlega erfitt að tala um þennan hrylling og þennan viðbjóð sem á sér stað í Úkraínu með þessari ólögmætu og hroðalegu innrás Rússa. Við höfum að sjálfsögðu fordæmt þessar árásir og þessa innrás. En það er svo mikilvægt núna, þegar því miður þetta stríð teygist á langinn, að við gleymum því ekki. Það eru allt of mörg stríð sem háð eru í heiminum í dag sem eru svolítið gleymdu stríðin. Ég ber þá von í brjósti að þetta verði svo sannarlega ekki eitt af þeim og að Rússar leggi niður vopn sín og fari aftur til síns heima og láti frjálsa Úkraínu í friði.

Þessi tillaga, sem hér er, sýnist mér á greinargerðinni að sé einmitt upprunnin vegna samtals sem íslenskir þingmenn hafa hér átt við úkraínska þingmenn þegar þeir komu hingað í kjölfar leiðtogafundarins þar sem segir að tillagan svari ákalli Úkraínumanna um að bregðast sérstaklega við ólöglegu og kerfisbundnu brottnámi rússneska hersins og aðila á hans vegum á úkraínskum börnum. Það er talið að þúsundir barna hafa verið numdar á brott og fluttar innan hernámssvæðis rússneska hersins í austanverðri Úkraínu til Belarúss og Rússlands þar sem hluti þeirra hefur verið nauðungarættleiddur til rússneskra fjölskyldna. Markmiðið virðist vera að slíta börnin frá tungumáli sínu og menningu og rjúfa þar með tengsl þeirra við úkraínsku þjóðina.

Viðbjóðurinn sem hefur átt sér stað í Úkraínu er náttúrlega mikill og það er kannski erfitt að raða því í einhverja röð hvað er ógeðslegast af þessu öllu sem þar á sér stað. En þetta hlýtur að vera eitt af því allra ömurlegasta og ógeðslegasta sem hægt er að beita í stríði. Mér er það minnisstætt þegar ég fyrir stuttu síðan sótti fund hjá Eystrasaltsþingunum, eða Eystrasaltsráðið hélt fund, að þar var m.a. úkraínskur þingmaður og úkraínsk blaðakona sem hefur komið hingað til lands og kom á fund okkar þegar við funduðum, Norðurlandaráð, og við áttum aðeins samtal um þessi mál. Ég held að hún hafi reyndar talað um að það væru 200.000 börn sem hefðu verið numin á brott og ég hugsaði: Heyrðu, það er næstum eins og íslenska þjóðin. Ég veit að þessar tölur eru mjög á reiki og það veit í rauninni enginn nákvæmlega hversu mörg börnin eru sem hafa þurft að upplifa þennan hrylling. Einhverjum, örfáum, hefur þó verið skilað aftur heim og hafa nú hitt fjölskyldur sínar aftur. En það er þannig að þetta stríð eða þessar aðgerðir og þessi hryllingur er með svo margvíslegum hætti. Það er auðvitað bæði bara innrás og svona stríðið, myndirnar sem við sjáum í fjölmiðlum þar sem húsin eru sprengd niður í rústir og við vitum af látnu fólki. En það er þetta sem ég hafði kannski ekki alveg áttað mig á sem er að ráðast gegn þjóðinni, gegn menningunni, tungumálinu, hversu mikið Rússar beita þeirri aðferð líka. Eins og þessi ágæta rússneska þingkona hefur lýst fyrir okkur hversu mikla áherslu þeir leggja á það t.d. að sprengja niður tónlistarhús, menningarmiðstöðvar eða söfn. Allt er þetta undir því yfirskini að drepa niður úkraínska þjóðarstoltið, þjóðarsálina sjálfa og það að gera það í gegnum börnin er auðvitað bara það viðbjóðslegasta sem hægt er að hugsa sér.

Virðulegur forseti. Mig langaði bara að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa þingsályktunartillögu. Ég tel hana mikilvægt skref og held að það sé líka svo mikilvægt vegna þess að við erum jú öll mannleg og það að heyra fréttir af stríðsátökum á hverju degi og að heyra hversu margir hafi fallið eftir sprengingar verður á endanum mjög þreytandi. Það er mannlegt eðli að vilja fjarlægja sig slíkum fréttum og þá á sama tíma verður það líka eðli fjölmiðla kannski að fara að segja minna og minna frá þeim fréttum. En það er svo ofboðslega mikilvægt að við stöndum með Úkraínu alla leið og drögum upp þessa skelfilegu mynd sem birtist þar og minnum stöðugt á þennan hrylling og þessa ólögmætu innrás Rússa í Úkraínu og þá stríðsglæpi sem þar eru framdir, þau brot á alþjóðalögum og munum það ávallt að Úkraínumenn standa vörð um gildin sem okkar þjóðfélag byggir á og okkar nágrannaríki, Evrópa, Norðurlöndin. Við byggjum á þessum gildum þar sem við leggjum alla áherslu á mannréttindi og að alþjóðalög séu virt og að lýðræðið sé virt. Í rauninni er þetta stríð, sem háð er í Úkraínu núna, stríð gegn þessum gildum. Við megum aldrei gleyma því og við þurfum alltaf að muna að við stöndum með Úkraínu og við fordæmum þessar aðgerðir Rússlands.