Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

opinbert eftirlit Matvælastofnunar.

540. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða opinbert eftirlit Matvælastofnunar (samræming gjaldtökuheimilda).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldtökuheimildum Matvælastofnunar auk þess sem lagðar eru til tvær nýjar heimildir til gjaldtöku á verkefnum sem stofnunin sinnir þegar. Frumvarpinu er ætlað að samræma orðalag og gera nánari grein fyrir þeim kostnaðarþáttum sem standa að baki raunkostnaði þjónustu og/eða eftirlits Matvælastofnunar og skýra heimildir til reglugerðar og gjaldskrár. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að einfalda regluverk og auka gagnsæi við gerð gjaldskrár.

Í umsögn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga er vikið að aðgengi að veittri þjónustu, m.a. við eftirlit vegna fiskeldis. Meiri hlutinn getur tekið undir þau sjónarmið sem þar eru reifuð og áréttar að skapa skuli samkeppnishæft starfsumhverfi fyrirtækja, óháð iðnaði, um land allt. Við beinum því til ráðuneytisins að huga vel að þeim þáttum, enda eru þeir grundvöllur að atvinnu og byggðafestu á landsbyggðinni.

Fleiri umsagnir komu hér fram. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er fjallað um gagnsæi og fyrirsjáanleika í gjaldtökuheimildum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið, bæði hvað varðar gagnsæi og fyrirsjáanleika og bendir á að frumvarpinu er einmitt ætlað að hafa þau áhrif að auka fyrirsjáanleika og gagnsæi í gjaldtöku Matvælastofnunar fyrir veitta þjónustu og eftirlit það sem stofnuninni ber lögum samkvæmt að viðhafa.

Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði víkja líka að gjaldskránni og mögulegum hækkunum á henni. Við í meiri hlutanum teljum áfram mikilvægt að gagnsæi og jafnræði sé haft að leiðarljósi þegar kemur að gjaldtökuheimildum, mikilvægi þess fyrir þær atvinnugreinar sem gjaldtakan snýr að er ótvírætt og að því þarf að huga. Gjaldskrá þarf eftir sem áður að standa undir veittri þjónustu en mikilvægt er að árétta að flestar þær heimildir sem hér er fjallað um eru til staðar nú þegar og er frumvarpinu einungis ætlað að samræma þær, auk þess að endurspegla þá þjónustu og eftirlit sem stofnunin viðhefur nú þegar. Matvælastofnun hefur nú þegar gjaldtökuheimildir samkvæmt þeim lagabálkum sem stofnunin vinnur eftir, en markmið þessa frumvarps er einungis að samræma orðalag og bæta í þar sem skort hefur á.

Við í meiri hlutanum bendum á að með þessu frumvarpi er ekki verið að breyta hinni eiginlegu gjaldskrá, utan þeirra breytinga sem lagðar eru til í 4. og 6. gr., en þær hafa óveruleg áhrif á innheimtu þjónustugjalda stofnunarinnar. Með samræmingu þessara heimilda er ætlunin að skýra hvaða kostnaður flokkast til raunkostnaðar, gjaldskrá Matvælastofnunar er ákveðin af ráðherra og hann skal samkvæmt lögum afla umsagna hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur gjaldskrár stofnunarinnar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

Við í meiri hlutanum leggjum til að þessar breytingar sem við gerum á frumvarpinu og eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif verði samþykktar. Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur og hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Teitur Björn Einarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.