153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu .

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur líka verið með sama málflutninginn um stöðu efnahagsmála — óháð verðbólgu, óháð atvinnuástandi, óháð hagvexti hefur þetta verið málflutningurinn alveg frá árinu 2018. Það er ekkert verið að gera í efnahagsmálum og það er ekki verið að bregðast rétt við. Í heimsfaraldri kom hv. þingmaður og sagði: Það er ekki verið að taka stór skref, það er ekki verið að gera nóg. Þegar þau mál eru gerð upp var líklega gert meira en nóg, herra forseti. Mér finnst þessi málflutningur því ekki standast skoðun og ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmenn Viðreisnar ætla að útskýra það að afkoma á frumjöfnuði sé nú 90 milljörðum betri en gert var ráð fyrir við samþykkt síðustu fjárlaga. Hvernig ætla hv. þingmenn Viðreisnar að útskýra það þegar hér er alltaf talað eins og húsið sé að brenna, sé brunnið, alveg sama hver staðan er í rauninni í efnahagsmálum?

Herra forseti. Þessi málflutningur þjónar engu markmiði.