153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

ný vatnslögn til Vestmannaeyja.

[15:42]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tækifærið til að fara aðeins yfir þetta mál. Fyrir ári síðan barst einmitt beiðni frá Vestmannaeyjum, sem er nú býsna stöndugt sveitarfélag með 2.500 íbúa, um stuðning við vatnsleiðslu sem átti að kosta 1.400 milljónir. Við könnun á því að gjöld til heimila í Vestmannaeyjum hefðu hækkað nokkuð en þó kannski verið í níunda eða tíunda sæti í samanburði annarra sveitarfélaga þá þóttu ekki rök til þess að fara inn og greiða stuðning til vatnsveitu til Vestmannaeyja frekar en vatnsveitu til annarra sveitarfélaga. Það eru auðvitað miklar skyldur sem hvíla á sveitarfélögunum að tryggja vatn til viðkomandi byggða. Hins vegar hefur þessi kostnaður vaxið allnokkuð og er kominn yfir 2 milljarða. Ég hef haft þau sjónarmið uppi að það gæti verið skynsamlegt, eins og í fráveitum, að ríkið kæmi almennt að stuðningi við slíkt, til að mynda með einhvers konar mótframlagi sem næmi virðisaukaskatti sem í þessu tilviki yrði þá um 400 milljónir. Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á og hefur verið flaggað að það eru auðvitað sérstakrar aðstæður til Eyja, ein lögn og almannavarnaástand sannarlega til staðar. Í ljósi þess höfum við tekið þetta mál til skoðunar að nýju og myndum gjarnan vilja fara í einhvers konar samtal við Vestmannaeyjar um hugsanlega viljayfirlýsingu eða eitthvað slíkt um það að þegar kostnaðurinn lægi fyrir og verkefnið væri búið og menn væru búnir að skilgreina ákveðin viðmið um það hvað væri eðlilegt, væri komið til móts við sveitarfélagið. Það hefur spilað inn í líka, þrátt fyrir þetta fordæmi sem hv. þingmaður nefndi frá 2007, að við núverandi aðstæður eru ekki neinir sérstakir afgangar (Forseti hringir.) í fjármálaáætlun til slíkra fjárveitinga, þannig að það hefur svo sem haldið aðeins aftur af því. En fyrst og fremst (Forseti hringir.) er mikilvægt að horfa til almannavarnasjónarmiðanna sem þingmaðurinn kom inn á og ég er sammála því (Forseti hringir.) og við munum skoða það.