Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[15:49]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Brottnám úkraínskra barna er stríðsglæpur. Innrásin í Úkraínu tekur á sig margar hræðilegar myndir. Ein þeirra er brottnám barna, sem eru slitin frá fjölskyldu og ættingjum og tekin frá því samfélagi sem þau hafa alist upp í og færð á framandi slóðir í hendur nýrra fósturforeldra og alin upp í öðru þjóðerni, öðrum gildum. Þau missa öll tengsl við fólkið sitt, menningu, uppruna og þjóðerni. Alþingi Íslendinga fordæmir í dag harðlega ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu og flutning þeirra, jafnt innan þeirra svæða og til Rússlands og Belarúss.