Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

opinbert eftirlit Matvæla stofnunar.

540. mál
[16:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er til meðferðar mál sem mun hafa þær afleiðingar að hækka sértekjur Matvælastofnunar um allt að 400 millj. kr. á ári. Það má vel vera að það sé talan sem passar við það sem þörf er á en í því samhengi verður að nefna hér gagnrýni sem komið hefur fram hjá m.a. Bændasamtökunum og Samtökum fyrirtækja í landbúnaði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Telja Bændasamtökin að þörf sé á mun ítarlegri greiningu á því hvar ætlunin sé að sækja þær 300–400 millj. kr. sem boðaðar eru á grundvelli bæði þeirra lagabreytinga sem hér eru til umræðu og breytinga á gjaldskrá.“

Svo segir áfram: „[…] þá verði jafnframt að fara fram greining og nákvæm skoðun á því hvar hægt sé að ná fram hagræðingu hjá stofnuninni til að lækka kostnað.“

Undir þetta taka Samtök fyrirtækja í landbúnaði þar sem þau segja m.a., með leyfi forseta:

„Samtökin ítreka þá athugasemd sína, sem fram kom í fyrri drögum, um mikilvægi þess að fram komi með hvaða hætti sú kostnaðaraukning mun koma til með að skiptast milli þeirra lagabálka sem frumvarpið nær til.“

Það er nauðsynlegt (Forseti hringir.) að við hér í þinginu tökum tillit til þess að við getum ekki lagt viðbótargjöld á atvinnulífið án þess að geta rökstutt það bærilega. (Forseti hringir.) Í gögnunum sem liggja fyrir er enga slíka greiningu að finna. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að slík umræða hafi átt sér stað inni í atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) en fyrir okkur þingmenn sem ekki eigum sæti þar er hún ekki aðgengileg.