Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er auðvitað lykilþáttur í þessu að þetta er valkvætt. En það sem kannski skiptir máli í þessu, finnst mér, eru líka starfsaðstæðurnar. Ég held að við áttum okkur alveg á því að þessi aldurshópur, ef hann kemur aftur inn í heilbrigðisstörfin, er t.d. ekki að fara að manna bráðamóttökur. Ég held að það sé nokkuð ljóst. En það þarf að skoða starfsumhverfið. Gerðar hafa verið kannanir á meðal hjúkrunarfræðinga og álagið er gríðarlega mikið á þessum vinnustöðum og það þarf að bæta starfsumhverfið. Það er ekki allt fengið með því að fjölga fólki og fá þá sem eru orðnir sjötugir til þess að koma aftur inn í heilbrigðiskerfið. Mig langaði bara að varpa því fram til hv. þingmanns hvort það sé ekki eðlilegt framhald af þessu máli að við færum í það að skoða starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks (Forseti hringir.) og sérstaklega þeirra sem eru að vinna á vöktum, löngum vöktum, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, starfsfólks bráðamóttökunnar o.s.frv.