Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þetta varðar laun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna. Þetta frumvarp var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og í forsætisráðuneytinu.

Samkvæmt þeim lögum sem lagt er til að verði breytt með frumvarpi þessu skulu laun tiltekinna starfa hækka 1. júlí hvert ár um hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár og sér Hagstofa Íslands um þá útreikninga. Í þessum hópi eru þjóðkjörnir fulltrúar, þ.e. forseti Íslands og alþingismenn, ráðherrar, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar og ríkissáttasemjari. Ég þarf ekki að rifja það upp hér í þessum sal að þetta fyrirkomulag var sett á fót með lögum nr. 79/2019, um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum, og byggt að meginstefnu til á tillögum starfshóps sem ríkisstjórn Íslands skipaði að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði um málefni kjararáðs í janúar 2018. Rökin að baki þessu fyrirkomulagi voru einkum þau að þá urðu mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum umræddra aðila öllum ljós og ríkissjóður gæti auk þess áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt. Ég vil ítreka það hér að ég tel að það kerfi sem komið var á með þessari breytingu hafi aukið gagnsæi, fyrirsjáanleika og komið í veg fyrir óvæntar ákvarðanir sem oft ollu miklu uppnámi í þjóðfélaginu. Þá er ég að vitna til ákvarðana fyrrum kjararáðs og var þessi breyting gerð í kjölfar einnar slíkrar.

Frá gildistöku laga nr. 79/2019 hafa laun þeirra sem taka laun samkvæmt sérákvæðum í lögum hækkað í fjórgang, um 5,9% árið 2019, um 2,7% 2020, um 5,1% 2021 og um 6,9% 2022. Samkvæmt viðmiði og útreikningum Hagstofunnar er meðaltalshækkun reglulegra launa ríkisstarfsmanna fyrir árið 2022 6% og munu laun þessa hóps að óbreyttu hækka um það hlutfall þann 1. júlí næstkomandi.

Herra forseti. Í lok mars sl. náðust rammasamningar milli opinberra launagreiðenda og bandalaga opinbers starfsfólks, sem kjarasamningar við stéttarfélög á opinberum vinnumarkaði hafa byggst á. Þeir fólu í sér samkomulag um að framlengja kjarasamninga til eins árs þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið var frestað. Útfærsla kjarasamninga var sambærileg því sem samið var um á almennum vinnumarkaði sem fól í sér blöndu krónutölu- og prósentuhækkana auk hámarkskrónutöluhækkana.

Eðli krónutöluhækkana, þar á meðal samninga um hámarksfjárhæðir, er að starfsfólk sem er á lægri launum fær hlutfallslega meiri hækkanir en starfsfólk á hærri launum. Þessi útfærsla leiðir af sér að hlutfallslegar hækkanir hærra launaðra hópa voru minni en þeirra sem hafa lægri laun líkt og var raunin í útfærslu opinberra launagreiðenda á lífskjarasamningunum sem samið var um árið 2019 og rímar þetta við áherslur verkalýðshreyfingarinnar á almennum markaði á að einbeita sér að því að berjast fyrir hækkun lægstu launa.

Í samræmi við þessa samninga og til að ganga fram með góðu fordæmi á tímum hárrar verðbólgu og vaxta er með frumvarpi þessu lagt til að laun þeirra sem taka laun samkvæmt þeim lagaákvæðum sem lagt er til að verði breytt með frumvarpinu hækki um 2,5% í stað 6%. Þar er horft til verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands sem nemur 2,5%.

Það er mikið í húfi, virðulegi forseti, og nokkuð ljóst af þeirri umræðu sem skapaðist hér á meðal forsvarsmanna og fulltrúa þingflokka að mörgum þótti rétt að stíga hér inn í almennan lagaramma, eins og lagt er til, með þessum hætti og æðstu embættismenn taki þannig á sig minni hækkun en áður stóð til miðað við gildandi lagafyrirkomulag. Þannig yrði tryggt að hækkun launa þessara aðila skapaði ekki aukinn verðbólguþrýsting, en fyrst og fremst er tilgangurinn sá að þeir sem gegna æðstu stöðum hjá ríkinu gangi á undan með góðu fordæmi og sýni í verki að þau séu reiðubúin að deila kjörum með venjulegu launafólki og axli þannig sína ábyrgð á því að stöðva verðbólguþróun sem getur orðið skaðleg fyrir samfélagið allt.

Herra forseti. Þessar hugmyndir voru reifaðar á fundi formanna flokkanna hér síðastliðinn mánudag. Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórnin ber ábyrgð á þeirri útfærslu sem hér er lögð til enda eru auðvitað ýmsar leiðir færar í því. En ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í greinargerð er farið yfir samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og það er mat okkar að þessi skerðing á launum sem lögð er til í frumvarpinu sé hófleg miðað við það sem ella hefði orðið. Það sé fjarri því að hún rýri virðingu þeirra embætta sem í hlut eiga, en það er mælikvarði sem sérstaklega hefur þýðingu varðandi dómara.

Í greinargerð frumvarpsins er farið sérstaklega yfir þau ákvæði sem gilda um greiðslur af ríkisfé til forseta lýðveldisins, en í stjórnarskrá kemur fram að óheimilt er að lækka þær greiðslur á kjörtímabili hans. Um ástæður fyrir þessu ákvæði segir í lögskýringargögnum að því sé ætlað að hindra að fjárhagslegum þvingunaraðstæðum verði beitt gegn forseta eða að Alþingi reyni eftir á að ná sér niðri á forseta með þessum hætti.

Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, sem lagt var fram í neðri deild Alþingis í janúar 1944, segir:

„Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt, að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Verður því að telja að þessi tillaga standist gagnvart 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrár, eins og hún er orðuð og skýrð í lögskýringargögnum.

Í greinargerð er einnig fjallað sérstaklega um málefni dómara, en eins og kunnugt er er kveðið á um það í stjórnarskrá að dómarar skuli vera sjálfstæðir í störfum sínum, enda er það m.a. hlutverk þeirra að hafa eftirlit með hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Það kallar augljóslega á að dómstólarnir séu með sem mestum og ríkustum hætti óháðir hinum tveimur örmunum. Það er kunnugt að áður hafa launakjör dómara komið fyrir dómstóla en í greinargerðinni hér er vitnað til þeirra álita sem Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefur birt þar sem fjallað er um þessar grunnreglur sem eru sameiginlegar Evrópuríkjum, þ.e. hvað varðar óhæði dómstólanna gagnvart hinum tveimur örmum ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Þá segir í áliti sem hér er vitnað til að komi til skerðingar á kjörum dómara af efnahagslegum ástæðum þurfi að gæta þess að launin séu áfram í samræmi við virðingu embættisins og ábyrgð sem því fylgir. Almenn lækkun launa opinberra starfsmanna þegar harðnar verulega á dalnum megi ná til dómara og verði ekki talin brot á sjálfstæði dómstóla. Laun dómara hljóti að taka mið af aðstæðum og kjörum annarra háttsettra embættismanna. Það megi líta á slíkt sem tákn um samstöðu og félagslegt réttlæti.

Það er því okkar mat, virðulegi forseti, að forsvaranlegt sé og í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar að eitt sé látið yfir alla þjóðkjörna fulltrúa og æðstu embættismenn ganga hverra laun eru ákveðin með lögum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni enda er þetta frumvarp stutt og skorinort og skýrir sig að mestu leyti sjálft. Ég legg til að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.