Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna. Mér finnst gott að í greinargerð komi fram greining á mögulegum áhrifum vegna stjórnarskrárinnar. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að ekki sé nægilegrar varúðar gætt gagnvart dómurum og forseta vegna þeirrar sérstöku stöðu sem dómarar og forseti njóta samkvæmt stjórnarskrá. Ég velti því fyrir mér, þegar ráðherra vísar í virðingu eða laun sem hæfa embætti dómara og sjálfstæði þeirra, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við grípum inn í launaákvarðanir og það er oftast í tengslum við gagnrýni á laun okkar sjálfra. Að vissu leyti mætti líta á þessa skerðingu á fyrirhugaðri hækkun á launum dómara sem afleiðingu af gagnrýni á laun þjóðkjörinna fulltrúa. Þetta er því ákveðin pólitísk afleiðing af gagnrýni sem fellur á hinn pólitíska arm stjórnvalda.

Í því samhengi held ég að það sé svolítið mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvort það að hafa þetta svona samhangandi, dómara og þingmenn, sé æskilegt fyrirkomulag til framtíðar. Mér finnst einhvern veginn eins og við séum alltaf að láta dómara súpa seyðið af því að það er mjög umdeilt hvaða laun við fáum og hvaða launahækkanir við fáum sem erum hér á þingi, sem er bara eðlilegt og mjög skiljanlegt. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og við störfum í umboði þjóðarinnar og það er eðlilegt að almenningur hafi skoðanir á því hvaða laun við höfum. En mér finnst ekki æskilegt það fyrirkomulag að alltaf sé verið að hnika til launum hjá dómurum og forseta Íslands, sem nýtur líka sérstakrar verndar, vegna þess að við erum að bregðast við gagnrýni úti í samfélaginu út af launum og launahækkunum sem við erum að fá.(Forseti hringir.)

Tekur hæstv. forsætisráðherra undir þær hugleiðingar að mögulega sé vert að skilja þessa hópa að í launaákvörðunum?