Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ánægjulegt að heyra að hún sé opin fyrir því að skoða þetta fyrirkomulag, burt séð frá mögulegri niðurstöðu. En það er einmitt með vísan til þess að það er einhvern veginn umræðan um okkar laun sem virðist svo bitna á kjörum dómara. Mér finnst að það þurfi að gilda ákveðin varúðarsjónarmið þegar kemur að því að krukka í laun dómara og þegar kemur að því að krukka í laun forseta Íslands. Við erum einfaldlega með stjórnarskrá og það er mjög mikilvægt að við séum alveg fullviss um að við stöndumst kröfur hennar þegar við leggjum til lagabreytingar. Ég vil halda því til haga að ég er ekki sannfærð um að þetta standist þær kröfur og hef þar af leiðandi viljað undanskilja þessa hópa.

Mig langaði aðeins að fara út í ræðu hæstv. ráðherra. Mér fannst einhvern veginn, og kannski heyrði ég bara illa þarna aftast í salnum, að ráðherra væri að segja að í raun hefðu okkar laun hækkað minna en gengur og gerist. Ég velti fyrir mér hvort það er verið að bera saman í prósentum frekar en samkvæmt krónutölu. Ef við segjum að launin okkar hafi hækkað um 5% og lægstu laun hafi hækkað um 8%, og nú er ég bara að slumpa á einhverjar tölur út í loftið, þá hafa launin okkar samt hækkað meira vegna þess að það er hærri upphæð sem prósentin leggjast ofan á. Það er ekki alltaf gott að bera saman í prósentum þegar kemur að launaþróun. Ég vildi bara fá það staðfest frá hæstv. ráðherra að þetta hafi verið andlagið að baki því sem ráðherra sagði þegar kemur að launahækkunum til okkar.