Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hennar athugasemd. Að sjálfsögðu, þegar verið er að takast á við stöðu eins og nú er uppi í efnahagsmálum, er ýmislegt sem kemur upp og er rætt. Það var niðurstaða ríkisstjórnarinnar að í fyrsta lagi væri mikilvægt að útfæra það aðhald sem við boðum í fjármálaáætlun betur og það erum við að gera. Ég tel 36 milljarða aðhald á næsta ári verulegt aðhald sem er verið að vinna með því að ráðast í tekjuöflun og svo aðhald í rekstri og þar erum við um leið trú því markmiði okkar að skerða ekki velferðina í landinu, standa vörð um þá uppbyggingu sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu, standa vörð um löggæslu og menntakerfi. Það er það sem er rætt um í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Við viljum fara inn í þetta með því að horfa til þess hvernig við getum dregið saman í rekstri stjórnsýslunnar, hvernig við getum dregið úr ferðakostnaði, hvernig við getum frestað framkvæmdum þannig að það slái raunverulega á þenslu, því að við vitum hvar þenslan liggur, og hvernig við getum aukið tekjuöflun þegar kemur að ferðaþjónustu. Við erum að leggja auknar álögur á lögaðila en teljum að þessi aðferðafræði skili marki. Þegar kemur að því að verja fólk fyrir áhrifum verðbólgunnar, hv. þingmaður er auðvitað að velta því upp þegar hún ræðir um lækkun á virðisaukaskatti á matvæli, þá er það okkar niðurstaða að skilvirkasta leiðin til að verja fólk sé að horfa á þá hópa sem verst verða fyrir áhrifum verðbólgunnar. Þess vegna höfum við verið að grípa inn í hvað varðar þau sem eru á greiðslum almannatrygginga. Þess vegna höfum við verið að hækka húsnæðisstuðninginn. Þess vegna höfum við verið að hækka barnabætur og boðum áframhald aðgerða á húsnæðismarkaði. Það eru kannski stærstu skilaboðin því að við sjáum svo sannarlega vandann á húsnæðismarkaði og við viljum beina kröftum ríkisins í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, við viljum draga úr öðrum framkvæmdum á meðan til að auka ekki á þensluna, því að þar er vandinn á framboðshliðinni; ég held að það deili enginn um það.