Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

framboð háskólanáms fyrir fatlað fólk.

1110. mál
[12:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn; kannski ekkert ósvipuð þeirri sem ég setti fram fyrr í vetur en það góða er að frá svari ráðherrans þá og þar til núna hafa átt sér stað framfarir, hafa verið teknar ákvarðanir sem ýta undir það að lífsgæði þessa hóps, sem við viljum byggja undir, styrkist. Allt of lítið hefur verið gert síðan við settum námið á laggirnar árið 2007. Það er fyrst núna sem er svolítið verið að grípa boltann og þess þá heldur er mikilvægt einmitt að þingmenn komi með fyrirspurnir. Með þeim er verið að miðla upplýsingum en það er líka ákveðið aðhald gagnvart ríkisstjórn og ráðherra að koma með slíkar fyrirspurnir. Það má hrósa því sem vel er gert, við erum að sjá stærri skref stigin. Eru þau nógu stór?. Nei, þau eru ekkert endilega nógu stór en hér er fókusinn á boltanum þannig að ég er ánægð með það.

Ég vil hins vegar deila því að ég hef samt ákveðnar áhyggjur af námsframboðinu sem þessi hópur stendur frammi fyrir og ég vil hvetja ráðherrann til að nýta hvatakerfið og þetta samstarfsverkefni háskóla til þess að ýta enn frekar undir það að tækifærum fjölgi. En ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn og svarið.