Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

bann við olíuleit.

949. mál
[12:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, ef ég skildi hann rétt, eða ég segi alla vega fyrir mitt leyti: Auðvitað er ljóst að það eru gríðarlegir hagsmunir undir fyrir ríki sem framleiða olíu að þau geri það áfram og að áfram verði eftirspurn eftir því. Og auðvitað þarf mótvægi við það og teikna upp skýra framtíðarsýn þar sem við segjum: Við ætlum okkur að minnka, takmarka og við ætlum fyrir okkar leyti að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Það þarf að ræða það á alþjóðavettvangi og þá þarf að teikna upp þá framtíðarsýn og afla henni stuðnings, m.a. vegna þess að við sjáum þetta auðvitað ekki bara fyrir náttúruna og umhverfið og þar með okkur sjálf heldur er þetta líka út frá öryggishagsmunum sem mér finnst enn þá of lítið talað um. Hvernig breytist geópólitíkin, landfræðileg pólitík, og valdahagsmunir ef okkur tekst raunverulega að fasa út jarðefnaeldsneyti og aðrir orkukostir koma í staðinn; hvar verða þeir framleiddir, hvaða stöðu skapar það fyrir þau ríki sem það gera o.s.frv.? Allt þetta finnst mér skipta máli og auðvitað skiptir máli að hafa augun opin fyrir því að það eru gríðarlegir hagsmunir undir og það er annars konar hagsmunamat hjá þeim ríkjum sem eru að framleiða mikið af olíu en þeim sem þurfa að nýta sínar gjaldeyristekjur til að flytja það inn og sum þurfa því miður að flytja það inn frá fjandsamlegum stjórnvöldum sem notað það síðan í annarlegum tilgangi til að stýra sinni pólitík og hafa áhrif á alþjóðasviðinu.

En í allri þessari umræðu finnst mér almennt skorta að ef við ætlum raunverulega að fasa út allt þetta gríðarlega magn af jarðefnaeldsneyti sem notað er þá þarf valkostina, sem eru endurnýjanlegir orkugjafar, og til að framleiða þá þarf að nýta náttúruna. Mér hefur fundist fólk einhvern veginn ekki alveg segja það sem það meinar eða meina það sem það segir þegar það talar annars vegar um að vera púristi í náttúruvernd og vilja ekki raska náttúrunni en vilja síðan loftslagsmarkmiðin og grænu orkuna. En það felur einfaldlega í sér rask á náttúru að gera það. Þetta þurfum við að segja hreint og klárt en ekki bara tala og vera síðan ekki tilbúin að gera það sem þarf til að framleiða þá orku sem á að koma í staðinn.