153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[19:42]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Góðir landsmenn. Hvað stendur upp úr að liðnum þingvetri? Hjá okkur í Samfylkingunni er svarið þetta: Ákall eftir aðgerðum fyrir fólkið í landinu. Aðgerðum til að vinna gegn verðbólgu og til að verja heimilisbókhaldið hjá fólki.

Í september settum við fram samstöðuaðgerðir fyrir heimilin, við kynntum kjarapakka fyrir jólin og nú fyrir þinglok höfum við stillt upp stuttum verkefnalista. Þrjú einföld verkefni sem er hægt að fara í strax: Vaxtabótaauki, leigubremsa og ívilnun til uppbyggingar. Allt fjármagnað að fullu með því að loka ehf.-gatinu.

Fleira þarf að gera og auðvitað myndi Samfylkingin stjórna landinu með öðrum hætti ef við værum í ríkisstjórn. En þetta eru allt aðgerðir sem sitjandi hæstv. ríkisstjórn ætti að geta fallist á, miðað við hvernig þau tala að minnsta kosti.

Í allan vetur höfum við stundað jákvæða pólitík, sett fram lausnir og lagt ofuráherslu á efnahags- og velferðarmálin. Samfylkingin hefur reynt að stappa stálinu í hæstv. ríkisstjórn, sem ber sig illa, lætur raunar eins og hún stýri engu og geti þess vegna enga ábyrgð tekið á aðstæðum, á meðan við höfum talað kjark og von í þjóðina. Við höfum veitt ábyrga stjórnarandstöðu sem sést kannski best á því að við höfum haft það sem viðmið að gera ekki tillögu um eina krónu í útgjöld án þess að tvær krónur komi á móti til að vinna gegn verðbólgu. Svona hefur Samfylkingin unnið hér á Alþingi. Við höfum verið lausnamiðuð og beinlínis reynt að hjálpa þessari hæstv. ríkisstjórn að átta sig og gefast ekki upp heldur grípa til aðgerða.

En, góðir landsmenn, við í Samfylkingunni vitum að það er líf fyrir utan sali Alþingis og það er framtíð eftir þetta kjörtímabil. Þess vegna höfum við nýtt tímann í fleira en að halda hæstv. ráðherrum við efnið. Síðustu vikur hefur Samfylkingin haldið hátt í 40 opna fundi með almenningi um heilbrigðismál um land allt og samhliða því fjölda vinnufunda með fólki af gólfinu og öðrum sérfræðingum.

Í Eyjum var rætt um álag á heilbrigðisstarfsfólk. Í Garðabæ vill fólk fastan tengilið í heilbrigðiskerfinu. Fólk vill bara öryggi og það vill þjóðarsamstöðu í þessu grundvallarvelferðarmáli, eins og ágætur maður á Hvammstanga hafði orð á. Fólkið í landinu er nefnilega með raunhæfar væntingar um framfarir í heilbrigðisþjónustu.

Þessi samtöl eru grunnur aðgerða okkar í Samfylkingunni. Þetta verklag er lykillinn að því að endurvekja von og trú fólks á að við getum gert hlutina betur hérna sem velferðarsamfélag. Við þurfum nefnilega að tala meira um hvað felst í velferðarþjóðfélagi. Gjarnan er talað um stöðugleika á vinnumarkaði á hinum Norðurlöndum en þar er tekjuöflunin meiri, tilfærslukerfin sterkari, almannaþjónustan umfangsmeiri og hlutverk hins opinbera á húsnæðismarkaði veigameira. Lítil og meðalstór fyrirtæki standa mun betur að vígi í slíku umhverfi auk þess sem launafólk getur sætt sig við minni prósentuhækkanir þar sem hið opinbera hefur bolmagn til að standa vörð um húsnæðisöryggi fólks. Við verjum stöðugleikann best með því að verja velferðina. Á þessu grundvallast stefna sósíaldemókrata sem hafa byggt upp farsælustu samfélög heims á Norðurlöndunum.

Fólkið í landinu vill alvöruumræðu um alvörumál. Þess vegna leggjum við ofuráherslu á kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks; þess vegna mætum við til fólksins, hlustum og tölum hreint út. Og við munum leggja öll spilin á borðið á þessu kjörtímabili um hvað við ætlum okkur að gera í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, fáum við til þess umboð. Með þessum hætti byggjum við upp traust, ekki aðeins á Samfylkingunni, heldur á stjórnmálunum í heild. Traust sem hefur rofnað.

Og talandi um traust, virðulegi forseti. Það er alvarlegt mál hvernig hæstv. ríkisstjórn skapar aftur og aftur falskar væntingar hjá fólkinu í landinu með uppblásnum fyrirsögnum sem reynist svo engin innstæða fyrir. Síðast í fyrradag var trommað upp með svokallaðan aðgerðapakka upp á 36 milljarða sem reyndist síðan ekki neitt nema endurtekið efni úr gamalli fjármálaáætlun, áætlun sem hafði fengið falleinkunn hvað varðar viðureignina við verðbólguna.

Eitt er að stunda pólitík og vera ósammála um hugmyndafræði og áherslur. En annað að geta ekki staðið með pólitíkinni sem maður stundar heldur villa þess í stað um fyrir fjölmiðlum og almenningi. Þetta grefur undan trausti. Þetta alvarlegt því að sterkt velferðarsamfélag byggir á trausti, getu fólks til að sjá sig í öðru fólki og stoltu framlagi til sameiginlegra sjóða sem fólk treystir að sé varið með skynsamlegum hætti og í þágu velferðar. Vilja til að standa með velferðarsamfélaginu.

Fyrir mér, kæru landsmenn, er það stóra verkefnið í stjórnmálunum á næstu árum því það kemur sá tími í lífi þjóðar að hún stendur á krossgötum. Og við þurfum að ákveða hvers konar þjóð við viljum vera. Velferðarþjóð? Stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi? Eða lausbundið samansafn einstaklinga þar sem keyrt er á þeirri mýtu að það sem helst skilgreini velsæld fólks sé skattprósentan sem er greidd, ekki gæði velferðarþjónustunnar í landinu. Hvað er það sem skiptir fólk mestu máli í þess daglega lífi? Bætir það velsæld fólks að auka ráðstöfunartekjur þess eftir skatta í krónum talið ef það býr ekki við húsnæðisöryggi eða fær ekki tíma hjá lækni, ef kynslóðin sem byggði landið nýtur ekki mannvirðingar á efri árum? Þetta eru grundvallarspurningar sem við stöndum frammi fyrir.

Svar Samfylkingarinnar verður skýrt: Styrkjum velferðina — fyrir landið allt. Sterk velferð, stolt þjóð. Þetta er sá valkostur sem Samfylkingin mun bjóða upp á.

Góðir landsmenn. Við ættum að geta sameinast núna á Alþingi um aðgerðir til að vinna gegn verðbólgu og verja heimilisbókhaldið hjá fólki. Það er hægt, en það sem er ekki í boði hins vegar er að gefast upp en sitja samt sem fastast í ríkisstjórn, stefnulaus og verklaus, þegar lausatökin bitna á fólkinu í landinu.

Samfylkingin mun halda áfram að stunda jákvæða pólitík og leggja til lausnir. Við munum halda áfram að hvetja hæstv. ríkisstjórn til dáða, og undirbúa okkur undir komandi verkefni; að koma hér á velferðarstjórn undir forystu jafnaðarfólks.