153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[19:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Kæra þjóð. Hjálparópin hafa aldrei verið jafn skerandi og nú frá því að ég var kjörin á Alþingi fyrir tæpum sex árum síðan. Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna. Hjálpið mér upp, mér finnst ég vera drukkna. Aldrei hef ég upplifað eins mikið vonleysi og sorg í samfélaginu okkar og aldrei hefði ég trúað því að óreyndu að ríkisstjórnin, að ráðherraherinn sem á að vera brjóstvörn allra landsmanna, skuli einungis vera skjöldur og hlíf fyrir þau sem allt eiga; fyrir þau sem raunverulega þurfa á engri hjálp að halda, fyrir þau sem standa fjárhagslega það vel að þau taka varla eftir því að okurvextir og óðaverðbólga æði hér um samfélagið sem eldur um akur.

Nei, þessi ríkisstjórn hefur stungið fingrunum í eyrun og kosið að túlka neyðarópin sem gleðióp þeirra sem hafa það að meðaltali alveg rosalega gott. Hver þekkir ekki möntruna um að hér drjúpi smjör af hverju strái og OECD segir: Já, að meðaltali hafa Íslendingar það algjörlega frábært, þar sem kaupmáttur hefur aldrei verið meiri og laun aldrei hærri? Ráðamenn keppast hver í kapp við annan að reyna að telja fátæku fólki trú um að víst hafi þau það verulega gott. Þetta er jú land tækifæranna.

Þvílík hræsni. Ég kvíði því að skoða pósthólfið mitt hvern einasta dag þar sem tugir bréfa bíða mín frá fátæku fólki í neyð. Póstur eins og: Nú er 1. júní og ég á bara 2.000 kr. til að lifa af út mánuðinn og ég er einungis búinn að greiða húsaleiguna mína. Eða: Ég get ekki meir, ég er bugaður maður. Eða: Ég á ekki fyrir mat handa börnunum mínum. Ef það væri ekki fyrir hjálparstofnanir og ölmusu sem ég þigg annars staðar frá þá myndum við svelta hér heilu hungri í landi tækifæranna.

Svona er Ísland í dag. Svona er lífið í landi tækifæranna þar sem ráðamenn sitja í fílabeinsturni og strá af og til örlítilli mylsnu niður af allsnægtaborði sínu yfir hópinn sem drukknandi hrópar á hjálp, mylsnu þeim til handa sem mest og langmest þurfa á aðstoð þeirra að halda.

En það bólar ekki á raunverulegum aðgerðum til að vinna gegn verðbólgunni í baráttunni gegn örbirgð, í baráttunni gegn vaxandi fátækt. Á síðastliðnum sex árum hefur fátækt íslenskra barna vaxið úr 9,1% í 13,1%. Hvorki meira né minna en á síðastliðnum sex árum í landi tækifæranna hefur fátækt íslenskra barna vaxið um 44%. Ég þori varla að ímynda mér hvernig staða þeirra væri ef þau ættu ekki barnamálaráðherra sem vill að allir viti að hann er besti vinur barnanna.

Við í Flokki fólksins höfum ítrekað boðað raunverulegar aðgerðir. Trekk í trekk höfum við lagt fram frumvörp hér sem öll eru meira og minna að takast á við þá erfiðleika sem eru í samfélaginu í dag, takast á við verðbólguna og örbirgðina og hækka lágmarksframfærslu. Og hæstv. ríkisstjórn: Hættið að skattleggja fátækt.

Við höfum viljað húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, það hefði gjörbreytt stöðunni strax. Í febrúar 2020, þegar við hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson vorum tvö ein að berjast hér í Flokki fólksins, þá byrjuðum við strax að ræða um hvaða aðgerðir ríkisstjórnin ætlaði að grípa til núna þegar það væri greinilegt að verðbólga væri handan við hornið. En nei, ráðamenn hér í þessu ágæta húsi, á hæstv. Alþingi Íslendinga, höfðu engar áhyggjur af því. Þeir sáu engin teikn á lofti um að hér væri verðbólga handan við hornið vegna þess að hér erum við alltaf í landi tækifæranna þar sem meðaltalið segir að allir hafi það alltaf svo rosalega gott. Húsnæðisliðurinn út úr vísitölunni hefði gjörbreytt stöðunni strax núna.

Við höfum líka, svo merkilegt sem það er, lagt til — ég ætla nú að vísa í ágætan ræðumann á undan mér, hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur, sem talar ítrekað um leigubremsuaðgerðir Samfylkingarinnar, okkar góða jafnaðarmannaflokks — að setja á leigubremsu, aðgerðir sem meira að segja Samfylkingin gat ekki greitt atkvæði með þegar við mæltum fyrir breytingartillögunni okkar um leigubremsu í desember. Nú liggur einmitt inni í þinginu frumvarp frá Flokki fólksins um leiguþak og leigubremsu og frumvarp um hækkun bankaskatts og hækkun á auðlindagjöldum. Við erum búin að tala um það líka að afnema verðtryggingu og til þrautavara að afnema verðtryggingu tímabundið á meðan við erum að ganga í gegnum þann brimskafl sem allir vita að við erum að gera í dag.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, í hvers lags er leikriti ég er að taka þátt í en það er eins og allir leikararnir séu enn þá inni í sminkherbergi að sminka sig áður en þeir ganga á sviðið því að það er ekkert að frétta, ekki neitt. Á að byggja íbúðir fyrir fólkið á viðráðanlegu verði? Nei, ríkisstjórnin klúðraði gjörsamlega gullnu tækifæri og samdi frá sér Keldnalandið með þeim afleiðingum að lóðaverð hefur rokið upp úr öllu valdi og Reykjavík ætlar nú ekkert að ráðast í neina uppbyggingu fyrr en hægt verður að tengja hana við borgarlínu. Á að tryggja þjóðinni sanngjarnt endurgjald af afnotum af sjávarauðlindinni? Nei, það á alls ekki að gera það. Þess í stað á að þrengja enn frekar að t.d. strandveiðisjómönnum og koma fleiri tegundum sjávarafla í gjafakvótakerfið.

Á að stemma stigu við og ráðast í aðgerðir gegn vaxandi fíknivanda sem hefur valdið ótímabærum dauða tuga ungmenna frá síðustu áramótum? Ég hef ekki heyrt um það. Ég hef ekkert heyrt nema að verið sé að skoða hlutina. Það er alveg ótrúlegt hvað hlutirnir geta verið lengi í nefnd. Það er alveg ótrúlegt hvað við þurfum að bíða lengi eftir því að hlutirnir taki á sig eðlilega mynd og eitthvað sé að frétta. Til gamans og ekki gamans þá hringdi í mig ungur maður um daginn sem er alkóhólisti og er búinn að vera edrú núna í allnokkuð marga mánuði, en hann átti inniliggjandi umsókn á sjúkrahúsið Vog til að biðja um hjálp. Þeir hringdu í hann núna og gleðifréttirnar voru þær að þá var hann reyndar búinn að vera edrú í 11 mánuði, sem segir okkur það að biðlistinn er alltaf til staðar. Það bíða um 700 einstaklingar eftir hjálp til að komast í læknismeðferð inn á sjúkrahúsið Vog.

Ríkisstjórnin talar um að verja framúrskarandi lífskjör og kaupmátt á meðan að gjáin á milli þeirra ríku og fátæku heldur áfram að breikka og dýpka.

Að lokum segi ég þetta: Ágæta ríkisstjórn. Að gefnu tilefni þá skora ég á ykkur að hætta að skattleggja fátækt og taka tillit til þeirrar 400.000 kr. lágmarksframfærslu sem Flokkur fólksins hefur mælt fyrir, skatta- og skerðingarlaust. Og ágæta ríkisstjórn: Í guðanna bænum farið að vakna og farið að hjálpa þeim raunverulega sem eru að kalla á hjálp og eru að drukkna.