153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Góða landsfólk. Nú er sólin farin að skína og ilmar af sumri, en fram undan sjáum við óveðursský sem þarf að koma okkur saman í gegnum. Óveðrið er grafalvarlegur aðsteðjandi vandi í efnahagsmálum, vandi sem ríkisstjórnin hefur ekki bara velt á undan sér að leysa heldur beinlínis gert enn verri með misráðnum efnahagsaðgerðum á síðustu misserum. Þegar stór hluti þjóðarinnar á erfitt með að ná endum saman og ótal fjölskyldur hafa áhyggjur af því hvort þær geti haldið þaki yfir höfuðið á sér hafa stjórnarflokkarnir setið rólegir og leyft seðlabankastjóra að hækka stýrivexti 13 sinnum frekar en að stíga inn á sviðið með aðgerðir í þágu almennings.

Loksins í fyrradag birti aðeins til og ríkisstjórnin boðaði til blaðamannafundar þar sem hún sagðist ætla að gera eitthvað. Flestar voru tillögurnar reyndar ansi kunnuglegar, en við biðum spennt eftir því að sjá útfærsluna í breytingum við fjármálaáætlun, af því að það vitum við að er plaggið sem rammar inn allar stærstu og smæstu aðgerðir hins opinbera. Hversu ótrúlega lýsandi en samt fullkomlega dæmigert var þá að sjá þingmenn sömu ríkisstjórnar afgreiða áætlunina frá sér án þess að leggja til eina einustu breytingu?

Þessu fylgdi kunnuglegt stef. Alltaf kemur nefnilega sama gaslýsingin frá ríkisstjórninni þegar hún er að fela hvað hún er léleg. Engar áhyggjur, þið þurfið engar aðgerðir, segir stjórnin, því að áætlunin var svo góð. Almenningur er bara að misskilja. Nærðu ekki endum saman um mánaðamótin? Hvaða, hvaða, þú hefur það að meðaltali gott.

Því miður erum við orðin allt of vön því hér í þingsal að efndir eru töluvert minni en mætti reikna með miðað við tilstandið á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar og í uppblásnum fréttatilkynningum hennar. Þetta einskorðast ekki við aðgerðir í efnahagsmálum og húsnæðismálum heldur er rauður þráður í flestum málaflokkum. Skoðum bara loftslagsmálin. Hversu oft höfum við fengið að heyra að ríkisstjórnin hafi tekið upp aukinn metnað í loftslagsmálum þegar hún var mynduð fyrir 18 mánuðum? Ekkert af þeim meinta aukna metnaði hefur samt skilað sér í aðgerðum eða aukinni fjárveitingu. Í staðinn fyrir að vera land sem sýnir forystu á heimsvísu þá stefnir í að 2023 verði þriðja árið í röð þar sem losun gróðurhúsalofttegunda eykst á Íslandi. Það er ekki endalaust hægt að gaslýsa fólk með fullyrðingum um aukinn metnað í loftslagsmálum þegar tölurnar sýna allt annað.

Eigum við að tala um Lindarhvol? Á vetrinum sem er að ljúka hefur forseti Alþingis, fulltrúi ríkisstjórnarinnar í þingstörfunum, gert það mál að farsa. Það er deginum ljósara að almenningur á heimtingu á því að fá aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda sem fjallar um sölu Bjarna Benediktssonar á tugmilljarða eignum ríkisins. En skjalinu hefur verið haldið ofan í læstri skúffu í fimm ár. Svo langt gengur meiri hlutinn í því að slá skjaldborg um fjármálaráðherra að hann bannaði þingmanni í vetur að leggja fram fyrirspurn um málið.

Og hvað með söluna á Íslandsbanka? Stjórnarliðar sögðust vilja velta við öllum steinum í því máli — þangað til kom í ljós að rannsóknarnefnd væri í raun eina leiðin til að svara því hvort fjármálaráðherra hefði mátt selja pabba sínum hlut í banka. Þá snerust stjórnarliðar öll sem eitt gegn því; það mátti við velta öllum steinum, bara ekki akkúrat þessum.

Svo eigum við dæmi þess að þingfólk stjórnarflokkanna hafi ekki einu sinni verið til í að fá álit sérfræðinga á því hvort lög standist stjórnarskrá. Þetta er eiginlega svo ótrúlegt að það þarf að segja það tvisvar: Stjórnarliðar neituðu að fá sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að skera úr um það hvort útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar stæðist stjórnarskrá.

Það væri í rauninni efni í sérstaka ræðu að fjalla um það hversu hart stjórnarliðar börðust gegn fólki á flótta með því að troða útlendingafrumvarpinu í gegn í vetur. Kannski er ágætt að hnýta bara aftan við það sem hæstv. ráðherra sagði hér rétt á undan mér. Þau segjast vilja taka vel á móti fólki og gera vel við það fólk sem hér fær að vera en gleyma þó alltaf nígeríska mansalsfórnarlambinu sem á að sparka úr landi eða palestínsku ungmennunum sem var hent á götunum án allrar þjónustu. Þessi meðferð er það sem fylgir frumvarpi Jóns Gunnarssonar sem stjórnarliðar samþykktu hér öll sem eitt.

Hver hefði trúað því fyrir örfáum árum að þar færu fremst í flokki fulltrúar Vinstri grænna, sem einu sinni töluðu fyrir aukinni mannúð í þessum málum? Hérna birtist nefnilega afleiðing þess að byggja brú á milli þessara andstæðu póla í stjórnmálunum, það sem var kynnt sem einhvers konar nýsköpunarverkefni í stjórnarmyndun á sínum tíma, auglýst sem leið til að vinna gegna öfgum: Oftar og oftar virðist brúin helst til þess brúkleg að Vinstri græn geti trítlað sér yfir á hinn pólinn og tekið undir sumar öfgakenndustu skoðanir Sjálfstæðisflokksins.

Já, það skiptir greinilega máli hver stjórnar.

Þangað til í þessari viku ætlaði ríkisstjórnin svo að klára veturinn með því að lögfesta draum Sjálfstæðisflokksins, forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, með fullum stuðningi allra stjórnarflokka. Það mál náðum við Píratar sem betur fer að semja út af borðinu. (Gripið fram í: Æ, æ, æ.) (Gripið fram í: Einmitt.)

Það er ekki góð staða í stjórnmálum. Við skulum nota sumarið til að hugsa hvernig hún gæti verið svo miklu betri, hvernig hér gæti verið ríkisstjórn sem þorir að taka ákvarðanir sem spegla hagsmuni og vilja almennings, ríkisstjórn sem felur sig ekki á bak við lögfræðinga heldur tekur mark á dýravelferð og stöðvar hvalveiðar bara strax frekar en að leyfa að lífið sé murkað úr nærri 200 langreyðum næstu mánuði, ríkisstjórn sem afglæpavæðir neysluskammta vímuefna frekar en að jarma fullkomlega án innstæðu um einhverja skaðaminnkun sem hún er svo ekkert að gera í og á meðan deyr fólk. Við þurfum ríkisstjórn sem hlustar á almenning og vinnur í þágu almennings, ríkisstjórn sem hlustar og gerir frekar en að gaslýsa.