153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Í boði ríkisstjórnarinnar er heilbrigðiskerfið okkar á yfirsnúningi, mannekla enn viðvarandi vandamál og álag á hverjum og einum starfsmanni allt of mikið. Í dag eru allt of mörg börn á biðlista eftir að komast á biðlista, til að komast á lokabiðlistann til að fá lífsnauðsynlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Eitt barn á bið er einu barni of mikið því að börn eiga aldrei að bíða eftir lífsnauðsynlegri þjónustu.

Yfir 10.000 börn búa við fátækt á Íslandi árið 2023 og það er ríkisstjórninni til háborinnar skammar að láta fátækt barna viðgangast ár eftir ár. Að við sem búum hér í þessu auðuga og gjöfula landi skulum leyfa okkur að láta þúsundir barna lifa í fátækt og allt of stóran hóp þeirra í sárafátækt, er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð og það í boði ríkisstjórnarinnar.

Verðbólgan sem nú er 10% étur upp allar hækkanir þeirra verst settu með hækkunum á leigu, matvælum, útvarpsgjaldi, sorphirðugjöldum og ýmsum öðrum gjöldum úr öllum áttum sem rignir yfir fátækt fólk. Þetta eru gjöld sem ekki bara éta upp þann litla ávinning af 2,5% hækkun almannatrygginga sem boðuð er í aðgerðum ríkisstjórnarinnar núna, heldur valda þau því að þeir verst stöddu verða bara að herða sultarólina enn fastar.

Hvaða afleiðingar hefur það fyrir fólk að lifa í ævarandi fátækt? Könnun sýndi að fólk sem þarf að lifa við viðvarandi fátækt getur tapað nokkrum árum og allt upp í áratug af ævi sinni. Það er okkur til háborinnar skammar að vera með þannig kerfi, sem ekki bara skaðar fátækt fólk andlega og líkamlega heldur styttir einnig verulega ævi þeirra.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við í Flokki fólksins erum með frumvörp og tillögur til að koma í veg fyrir fátækt og þá einnig lausnir sem taka á vanda heimilanna. Ríkisstjórnin sér ekki vandamál þeirra verst settu, heyrir ekki í þeim sem verst hafa það og talar bara tungum sem enginn skilur, hvað þá hún sjálf. Því eru vandamál aldraðra að stóraukast og veikt og fatlað fólk býr í hennar boði við sárafátækt. En nú er ríkisstjórnin að rumska af löngum svefni og virðist vera hálf„hvalin“ og langreið og í tómu rusli með sín mál og kennir stjórnarandstöðunni um allt; hennar eigið klúður.

Virðulegur forseti og kæru landsmenn. Í skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað, sem sérfræðingar unnu fyrir forsætisráðuneytið nýlega, er sagt að staðan á Íslandi sé með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda. Á hinn bóginn kemur einnig fram í skýrslunni að svo virðist sem staða eldri borgara hafi í heildina lítið batnað og benda höfundar á að aldrað fólk á lífeyrislaunum almannatrygginga og er fátækt búi nú við sárafátækt. Þetta er alfarið í boði ríkisstjórnarinnar af því að þeir sem reyna að tóra á lífeyrislaunum, sem eru 10% lægri en ellilífeyrislaun, verða einnig fyrir krónu á móti krónu skerðingu og eru pikkfastir í sárafátæktargildru hennar.

Að öllu þessu sögðu og vegna undrunar minnar á þeim vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar að hækka lífeyrislaun almannatrygginga bara um aum 2,5%, laust eftirfarandi vísu niður í huga mér, með leyfi forseta:

Öryrkinn með íþyngjandi skattinn

er alveg staur.

Borgar ekki skerðingarskattinn

því hann á engan aur.

Svangur í sinni fátækt

á hann ekkert brauð

því hækkun þessarar ríkisstjórnar

er allt of, allt of snauð.

Af þessu tilefni og mörgum öðrum: Ríkisstjórn, hættið að skatta og skerða lífeyri til sárafátæktar.