153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:05]
Horfa

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir (P):

Kæra þjóð. Nú hef ég gert eins og margir Íslendingar í aldanna rás og farið út til þess að mennta mig. En eins og við gerum flest þegar við förum til útlanda þá sakna ég Íslands mikið og hef alltaf hugann við að koma heim, koma mér upp íbúð og byrja mitt líf hér. En í þessum hugleiðingum sem ég er núna komin í er komin upp spurning sem ég veit að mörg í minni stöðu eru að velta fyrir sér: Er þetta yfir höfuð raunhæfur kostur í dag?

Tökum sem dæmi venjulega manneskju: Það er hún Gerður sem er í svipaðri stöðu og ég. Gerður ákvað að fjárfesta í menntun sinni og á því ekki mikinn uppsafnaðan pening þegar hún flytur heim. Hún byrjar á leigumarkaði því að foreldrar hennar búa úti á landi. Laun hennar verða kannski 600.000 kr., sem er í kringum 450.000 kr. útborgað. Hún borgar 200.000 kr. í leigu og samkvæmt neyslureiknivél félagsmálaráðuneytisins borgar hún 198.000 kr. í mat, bíl, síma og uppihald. Þá á hún 52.000 kr. eftir, sem iðjusama Gerður leggur allt til hliðar í sparnað. Meira að segja þótt hún sé að gera allt rétt mun það taka hana átta ár að safna sér fyrir útborgun í íbúð og það miðað við að fasteignaverð standi í stað í átta ár, sem er auðvitað afar ólíklegt. En allt í lagi, gefum okkur að henni takist það. Gerður finnur stúdíóíbúð í úthverfi Reykjavíkur á 40 millj. kr. og er fyrsta afborgun 140.000 kr., því að hún hefur ekki efni á því að taka óverðtryggt lán með 312.000 kr. afborgun. Miðað við þetta mun Gerður borga lánið sitt fjórtán sinnum til baka, eða samtals um 572 milljónir. Þetta er að vísu miðað við svartsýnni spár og miðað við núverandi vexti en það er einhvern veginn eins og það þurfi alltaf að gera ráð fyrir því versta hérlendis. En ef við miðum jafnvel við góðæristíma er hún að fara að borga íbúðina aftur fjórfalt til fimmfalt á meðan nágrannar okkar á Norðurlöndunum með sambærileg lán greiða íbúðina til baka kannski tvöfalt.

Dæmið gengur ekki alveg upp, enda er efnahagskerfið hérlendis ekki hugsað út frá fólki heldur út frá fjármagnseigendum og bönkum. Fjármagnseigendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af sveiflukenndu hagkerfi því að bankarnir pína okkur í verðtryggð lán sem tryggja þeim góða ávöxtun. Á meðan tekur ungt par óverðtryggt íbúðalán í boðuðu lágvaxtaumhverfi árið 2020 og situr svo í súpunni með sveiflukennda vexti sem hafa nú náð 10%.

Hátt vaxtaumhverfi er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er ekki út af neinum sérstökum aðstæðum hérlendis, út af því að Ísland er eyja með frjálsan gjaldmiðil, því að t.d. fara Færeyjar létt með að bjóða upp á helmingi lægri vexti fyrir fólk. Hver er munurinn? Vextir þeirra eru tengdir Evrópu og því er meiri samkeppni á lánamarkaði. Það leiðir af sér að bankar í Færeyjum hagnast hlutfallslega aðeins minna, en það sem skiptir máli er að fólki þar bjóðast samkeppnishæf lán. Hérlendis, í fákeppnisumhverfi, hafa bankarnir alveg sloppið við þessa verðbólgu enda sýna þeir methagnað og velta kostnaði yfir á almenning. Hvernig væri að við hugsuðum samkeppni aðeins meira út frá notendum banka, út frá lánakjörum fólks en ekki bara hagsmunum fjármagnseigenda?

En það eru ekki bara einstaklingar sem þurfa að kljást við afleiðingar þessarar hagstjórnar heldur líka fyrirtæki sem þurfa að fjármagna sig með þrefalt hærri vöxtum en í Evrópu. Sum fyrirtæki eru nógu stór til þess að gera upp í erlendri mynt og fá þá evrópsk lán en ekki minni fyrirtæki, sem við erum alltaf að segja að sé bakbein samfélagsins. Því eru það bara þeir sem hafa minna fjármagn milli handa, minni fyrirtæki og fólk í íbúðarkaupum, sem þurfa að súpa seyðið af 13 stýrivaxtahækkunum.

Það er svo margt sem ríkisstjórnin gæti gert en skilaboðin finnast mér liggja í þögninni: Að við eigum bara að hysja upp um okkur buxurnar, spara meira, taka hærri námslán, fá okkur enn aðra vinnu, bíða í klukkutíma úti eftir strætó sem kemur ekki og borða túnfisk úr dós.

Forseti. Þetta er ein mesta gaslýsing sem ég hef séð, að efnahagsástandið sé á ábyrgð almennings en ekki þeirra sem hafa farið með stjórn efnahagsmála í fleiri ár.

Samfélagið er hér á fleygiferð. Við unga kynslóðin erum tilbúin til þess að leggja okkar af mörkum í þágu þeirrar framþróunar sem samfélagið okkar þarf virkilega á að halda en þessi óábyrga og sveiflukennda hagstjórn er að gera okkur það afskaplega erfitt. Við getum gert svo miklu betur. Við getum breytt efnahagskerfinu í þágu fólks, tekið framtíðinni opnum örmum og stutt við hugmyndir, líf og velsæld næstu kynslóðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)