Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[20:20]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál sé komið út úr nefnd og að við séum að stefna í rétta átt og betri átt í þessum málaflokki. Ég er svo einlæglega þakklát fyrir hvert einasta skref sem við sem samfélag stígum í átt að meira réttlæti og skilningi gagnvart einhverju sem á að vera svo almennt. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að við setjum ekki fólk sem glímir við ófrjósemi, barnleysi og þarf að leita sérfræðiaðstoðar alltaf undir smásjána.

Þegar við setjum þetta upp á þennan einfalda hátt, hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er og hvernig sem er, getur farið og búið til barn eftir gömlu aðferðinni, og á því höfum við ekki eftirlit af því að í hjarta okkar finnst okkur það ekki koma nokkrum manni við hvernig börnin verða til, en þegar einstaklingar, sökum einhvers konar heilsubrests, eitthvað verður til þess að fólk getur ekki eignast börn, hinsegin fólk t.d., það geta verið ýmsar ástæður, þá finnst okkur sérstök ástæða — við viljum safna persónuupplýsingum. Við viljum fá undirrituð leyfi. Við viljum láta skrá sérstaklega í hinum ýmsu stofnunum. Við viljum fara rosalega langa leið. Ég skil að það er verið að hugsa um hag barnsins en hagur barna sem búin eru til með glasafrjóvgun er ekki dýrmætari en hagur annarra barna. Þetta þekkjum við úr samfélaginu okkar.

Mig langar að vísa sérstaklega til þess þegar við innleiddum hér nýja löggjöf um persónuvernd. Þá fórum við öll af stað og vönduðum okkur gríðarlega mikið og fórum að mörgu leyti offari í þeirri vinnu. En það sem svo gerðist þegar tíminn leið var að við fórum að sjá að við öfluðum meiri persónuupplýsinga, viðkvæmra persónuupplýsinga, t.d. um fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna, fólk í viðkvæmri stöðu, fólk í félagslegum vanda. Þetta er hættan, alltaf þegar við erum komin með einhvers konar jaðarsetta hópa, þegar við erum farin að setja upp einhvers konar eftirlit og einhverjar skyldur, þá hættir okkur til að ganga lengra gagnvart ákveðnum hópum. Mig langaði að koma hérna upp og vekja athygli á þessu.

Ég á sjálf þrjú börn sem getin eru með glasafrjóvgun, fjögur börn í heildina. Ég hef þurft í gegnum þau ferli að svara mjög einkennilegum spurningum, bæði í því ferli og á fæðingardeildinni. Ég hef þurft að mæta með einhverja pappíra um það að konan mín samþykki meðferð á mér. Hvar er ákvörðunarréttur yfir eigin líkama þar, þegar löggjafinn festir það í orðanna hljóðan að einhver gefi aðgang að mínum líkama? Ég veit að hugurinn á bak við er góður en það snýst samt um það að við séum ekki með okkar löggjöf, með okkar regluverki, sem við setjum af góðum hug, að mismuna fólki, jaðarsetja hópa, fylgjast betur með einum einstaklingi en öðrum, setja þyngri kröfur fjárhagslega, andlega, líkamlega á einn einstakling umfram annan af því það er ekki samfélag sem við viljum búa í.

Þess vegna kem ég hér upp, til að brýna okkur í því að við allt það sem við gerum, eins og t.d. þetta mál, sem var aðkallandi, sem er mikilvægt og sem velferðarnefnd lagði sig fram um að vinna vel og er hér komið til afgreiðslu inn í þingsal, þá megum við aldrei gleyma því að við þurfum að vera með jafnréttis- og sanngirnisgleraugun þannig að með því að auka réttindi eða vera víðsýnni eða opna umræðuna þá séum við ekki á sama tíma að jaðarsetja ákveðið fólk.