Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[20:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa komið hér upp og rætt þetta mál og bent á góða hluti, stundum frá eigin reynslu. Það er mikilvægt í svona starfi að við hlustum á þá sem þurfa að ganga í gegnum þau lög sem við erum að setja.

Mig langar líka að þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu við þetta frumvarp og það að laga suma af þeim vanköntum sem eru á því eins og t.d. að vera að skipta sér af hjúskaparformi þeirra sem nýta sér þessar kynfrumur og fósturvísa. Það kemur okkur ekkert við svo lengi sem allir eru sammála. Ég hefði viljað sjá þetta ganga aðeins lengra, líka þegar kemur að hjúskaparstöðu þeirra sem geta gefið samþykki. Þar er talað um fyrrverandi maka. Það er ekkert einfaldlega þannig hjá öllum að það séu makar sem eru að gefa kynfrumurnar. Við eigum heldur ekki að vera að skipta okkur af því ef tveir einstaklingar ákveða að búa til fósturvísa og ákveða að það megi nota þetta eftir skilnað eða sambúðarslit eða lát annars aðilans. Þá á það hreinlega að vera leyft. Ég hefði viljað sjá okkur ganga enn lengra en þetta er skrefið sem við munum stíga þennan veturinn.

Ég vona að við höldum áfram að skoða þessi mál, höldum áfram að hlusta þegar okkur er bent á hvað sé asnalegt í lögunum eins og þau eru, að við hlustum á sögurnar frá fólkinu sem lendir á vegg þegar kemur að því að fara í gegnum þau lög sem við erum að samþykkja hér og nýtum okkur það til að gera löggjöfina enn betri.