Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

almannatryggingar og húsnæðisbætur.

1155. mál
[21:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að það er sannarlega jákvætt að grípa til hækkana þegar fyrirséð er að kjör öryrkja og eldra fólks sem treystir á greiðslur frá Tryggingastofnun muni versna frá því sem áætlað var um áramótin. En það er hins vegar þannig að 2,5% eru ansi lítið og lág prósenta af lágum upphæðum gefur alltaf lága tölu. Þarna erum við að tala um 7.700 kr. hækkun á grunninn, fyrir skatt, sem eru rétt rúmar 5.000 kr. í vasann. Auðvitað munar fátækt fólk um 5.000 kr. á mánuði, en það gerir bara svo lítið þegar staða og kjör öryrkja og eldra fólks á strípuðum greiðslum frá Tryggingastofnun eru skoðuð. Það er rétt að minna á nýlega könnun í þessu sambandi sem var gefin út til að skoða heilbrigðiskostnað sem fólk þarf að bera. Þar voru allir skoðaðir, en sérstaklega öryrkjar, og kom í ljós að 43% öryrkja fresta því að fara til læknis þessa dagana og fjölgun þeirra sem fresta því að fara til læknis vegna kostnaðar hefur vaxið heilmikið síðan að þetta var síðast skoðað á árinu 2015.

Því er áhyggjuefni og augljóst þegar horft er á tölurnar sem almannatryggingarnar gefa, að enginn getur lifað á þeim krónum sem er skammtað á mánuði til þessara hópa. Þannig er það bara. Síðan liggur önnur könnun fyrir sem sýnir hvað öryrkjar borga í húsnæðiskostnað og það er allt upp í 85% af ráðstöfunartekjum. Það sér hver maður að þetta gengur ekki og því er fínt að hækka. En ég tek undir með minni hlutanum að þessi prósenta hefði þurft að vera hærri og Öryrkjabandalagið leggur líka fram rök fyrir því í sinni umsögn.

Stundum þegar við höfum verið að leggja fram tillögur um breytingar á almannatryggingakerfinu um mitt ár, eins og nú er gert, hafa stjórnarliðar sagt: Nei, það er ekki hægt af því að það á bara að gera þetta samkvæmt einhverju ákveðnu kerfi og ákveðnum lögum, og það verður að tiltaka það í fjárlögum fyrir árið og næstkomandi ár o.s.frv. En þessi aðgerð núna sýnir að það er auðvitað rangt. Auðvitað má gera betur en lögin gera ráð fyrir. Það var líka gert hér árið 2011 þegar Guðbjartur Hannesson var velferðarráðherra. Árið 2011 voru gerðir kjarasamningar eftir mörg erfið ár eftir hrun þar sem bæði var um hlutfallslegar hækkanir að ræða og eingreiðslur. Það var ákveðið og Guðbjartur Hannesson lagði það til og fylgdi því eftir að öryrkjar og eldra fólk fengju hækkunina þá þegar um sumarið 2011 og eingreiðsluna líka. Það er það sem þarf að gera og auðvitað þarf að breyta þessum viðmiðum og þeim hækkunum sem árlega eru á þessum bótum, því að við getum bara horft á þróunina þar sem er aðeins í eina átt.

Þannig er það, frú forseti, að fátækt spyr ekki um kyn en samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun og þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna þess að þær eru að sinna börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki ná konur ekki eins oft framgangi á vinnumarkaði og fá ekki sömu tækifæri þar, sem hefur líka áhrif á launin og eftirlaunin. Í frumvarpinu er þetta orðað svona, með leyfi forseta:

„Konur eru að jafnaði tvöfalt fleiri en karlar meðal öryrkja og hafa síður atvinnutekjur. Aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar og samkvæmt skýrslu starfshóps um kjör aldraðra frá desember 2018 kemur fram að af þeim íbúum 67 ára og eldri sem búa við lökust kjör eru 60–70% konur.“

Kjaragliðnunin á milli launamanna á lægstu launum og þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga hefur vaxið ár frá ári og er nú að nálgast um 100.000 kr. á mánuði. Það verður að leiðrétta þetta og þegar búið er að loka því gati þarf að finna leiðir til að sjá til þess að kjaragliðnunin stöðvist og taki þá ekki bara að gliðna að nýju. Það er sláandi, frú forseti, að horfa á tölurnar í þessum efnum og hvernig t.d. lífskjarasamningarnir voru, vegna þess að almannatryggingarnar fylgdu þeim ekki eftir. Þar voru sérstakar krónutöluhækkanir á lægstu laun og þar með gliðnaði á milli launamanna á lægstu launum og þeirra sem þurfa að treysta á almannatryggingar sér til framfærslu.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ítrekað lagt fram frumvörp um réttláta hækkun lífeyris almannatrygginga sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. Það er þekkt að hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fór hér yfir áðan, ýta undir þá hættu. Nú er það svo að hjálparstofnanir hafa á síðustu mánuðum nú á þessu ári og því síðasta, orðið varar við mikla aukningu matarúthlutana og er ástæðan sú að það eru sífellt fleiri sem ekki ná endum saman, og öryrkjar og einstæðar og langveikar mæður eru í mestri hættu á að lenda í fátækt. Ójöfnuður vex hér á landi vegna þess að elli- og örorkulífeyrir hækkar ekki í takti við lægstu laun. Þannig er fátæktargildran einhvern veginn búin til og fólki haldið í þessari gildru. Það verður að vinna á kjaragliðnun undangenginna ára og hækka elli- og örorkulífeyri. Fólk sem ekki hefur tækifæri til að afla sér atvinnutekna hefur sumt engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur og treystir algerlega á almannatryggingakerfið.

Við í Samfylkingunni lögðum fram nefndarálit í tengslum við fjármálaáætlun sem mælt var fyrir vorið 2021, fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 — sennilega var mælt fyrir henni um haustið og nú er ég ekki alveg með mánuðina á tæru um hvenær mælt var fyrir þeirri fjármálaáætlun — alla vega var í því nefndaráliti sem Samfylkingin skilaði þá sett upp fjögurra ára áætlun um að vinna á kjaragliðnuninni. Þar notuðum við útreikninga sem þá höfðu birst í nýlegri skýrslu Eflingar sem Stefán Ólafsson og fleiri höfðu gert og lögðum við til hvernig það væri hægt í þrepum, á fjórum árum, að ná þessu gati saman. Þetta er auðvitað ekki ókeypis en fátæktin kostar okkur líka mikið og það eru til margar skýrslur sem sýna fram að fátækt er mjög kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Útreikningar sýndu að þetta kostaði vel á fjórða tug milljarða króna en er sannarlega þess virði þegar upp er staðið. Það er mikilvægt í velferðarsamfélagi að við getum náð því markmiði að eldra fólk eigi áhyggjulaust ævikvöld að þessu leyti og þurfi ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á kannski annað sem lífið færir þeim til að glíma við.

Frú forseti. Ég tek sem sagt undir með nefndaráliti minni hlutans og breytingartillögum minni hlutans þar sem lagt er til að hækkunin verði ekki 2,5% heldur 6%. Það er lítið skref í áttina að því að loka kjaragliðnuninni, en það er samt stærra skref en að fara upp í 2,5% sem gefa aðeins, eins og ég sagði áðan, 7.700 kr., ef við horfum bara á grunninn sem á að hækka núna. Hins vegar gæfi 6% hækkun 18.500 kr. Báðar tölurnar eru fyrir skatt og augljóslega eru því 6% betri. Öryrkjabandalagið segir að þeirra fólk myndi telja að það gæti komið til móts við stöðuna eins og hún er núna. Það er mjög hóflegt hjá þeim að mínu mati og er upplagt að nýta tækifærið til að taka þetta skref. Stundum þegar við erum að ræða þetta við hv. stjórnarþingmenn þá segja þeir: Ja, það er nú verið að endurskoða kerfið. Það er bara fínt, það þarf að endurskoða kerfið, en það þarf líka að loka þessu gati sem er á milli lægstu launa og lífeyrisgreiðslna eldra fólks og öryrkja. Það þurfum við að gera í skrefum og ég trúi því ekki að þessar breytingar sem verið er að vinna eigi að verða til þess að auka enn á kjaragliðnunina. Því hlýtur að vera allt í fína lagi og bara betra að taka skref að því að hækka grunninn og það getur auðveldlega gerst á meðan verið er að vinna að því breyta kerfinu, vegna þess að ég trúi því alla vega ekki að það sé ætlan hæstv. ríkisstjórnar og hv. stjórnarþingmanna að einhver sem þarf að treysta nú á greiðslu almannatrygginga sér til framfærslu muni standa verr að vígi eftir þá breytingu. Það væri hneyksli, frú forseti. Því er ekkert hættulegt við það og bara gott, sanngjarnt og réttlátt, að hækka greiðslur almannatrygginga og vinna á þessari kjaragliðnun, sem er augljós, og leysa fólk úr fátæktargildru sem það hefur verið of lengi fast í.