Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrsta flutningsmanni að þessu mikilvæga máli sem við erum að fjalla um hér. Ég tek undir með hv. þingmanni að ræða framsögumanns, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, var mjög góð og tók af allan vafa, af því að hv. þingmaður kom inn á þennan misskilning í sinni ræðu. Ég vil líka segja að það eru mjög mikilvægar breytingar sem eru gerðar á málinu í ljósi umsagnar refsiréttarnefndar þegar kemur að heilbrigðisstarfsfólki og fjölmörgum fagstéttum, af því að ég veit fáar fagstéttir sem vinna undir jafn miklu og þéttu regluverki um þetta viðkvæma samband við sína skjólstæðinga þegar kemur að kröfum um þekkingu, færni, gæði og eftirlit — lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni, lög um heilbrigðisþjónustu og lög um heilbrigðisstarfsmenn. Þess vegna er það mjög mikilvægt einmitt að taka af allan þennan vafa. Ef upp kemur vafi eða einhver misskilningur er það mikilvægt. Það er það sem það segir mér. Ég vildi taka þetta upp. En ég vil líka vísa, með leyfi forseta, í nefndarálit sem er með málinu og árétta að beina því til dómsmálaráðuneytis að láta framkvæma úttekt á umfangi bælingarmeðferða hér á landi og í nágrannalöndum: „Þannig mætti vinna að frekari umbótum til að styðja við þolendur slíkra meðferða í samráði við heilbrigðis-, barnaverndar- og félagsmálayfirvöld …“

Ég beini því hér til hv. þingmanns í andsvari hvort hv. allsherjar- og menntamálanefnd og eftir atvikum velferðarnefnd geti ekki beitt sér frekar í því að taka þetta samráð upp á þeim tíma sem líður fram að gildistöku laga.