Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú bæti ég mér í hóp þeirra þingmanna sem hafa kvatt sér hljóðs í dag til að lýsa því hversu stoltur ég er að hafa komið að þessu máli þó að ekki hafi verið mikið meira en bara að fá að leggja nafn mitt við það við framlagningu. Takk fyrir það, Hanna Katrín Friðriksson, og takk, allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að hafa tekið málið svona vel í fangið, unnið það til enn betri vegar þannig að við séum komin að þessum tímapunkti að geta lögfest þar sem er mjög mikilvæg réttarbót þó að hún snúist bara um til þess að gera lítinn hóp sem allt of sjaldan er gefinn sá gaumur sem hann verðskuldar vegna þess að, eins og hefur komið fram í fyrri ræðum, hann er svo jaðarsettur að svo mörgu leyti.

Kanarífuglinn í kolanámunni, var myndlíkingin sem var notuð áðan. Hinsegin ungmenni eru aldeilis búin að sýna okkur að þau eru það þegar kemur að hatursorðræðu í samfélaginu. Allt of seint brugðust stjórnvöld við þeirri staðreynd, þeirri upplifðu staðreynd hinsegin ungmenna að hróp voru gerð að þeim úti á götu. Að þau urðu fyrir niðurlægjandi framkomu og ummælum í almannarýminu. Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir að allt það fólk sem starfar með hinsegin ungmennum var búið að hnippa í fólk sér málkunnugu hér inni á þingi að Stjórnarráðið rankaði við sér og fór að bregðast við.

Ég held að þetta frumvarp endurspegli líka áhugaverða kannski góða staðreynd — nei, ég veit ekki. Ég er ekki alveg búinn að gera upp við mig hvort það sé góð staðreynd. Alla vega endurspeglar það þá staðreynd að framfarir í málefnum jaðarsettra hópa, framfarir í málefnum hinsegin fólks á Íslandi hafa orðið annars vegar vegna þess að samtök hinsegin fólks á Íslandi hafa bara lagt mjög hart að sér. Grasrótin hefur verið sterk þrátt fyrir mótlætið og að einstaka þingmenn hafa tekið málefni þeirra upp á sína arma. Mig langar að nefna Guðrúnu Ögmundsdóttur, hv. fyrrverandi þingmann, sem ég held að eigi meira en nokkur ríkisstjórn í því að hér náðist lagalegt jafnrétti hinsegin fólks hvað varðar sambúð, ættleiðingar, ýmislegt, bara vegna þess að hún hafði það vit sem til þarf til að geta hlustað á fólk í viðkvæmri stöðu og meðtekið og áttað sig á því hvað það er sem þarf að gera. Þessi samlíðan er eitthvað sem skortir allt of oft og eitthvað sem gleymist kannski í dagsins önn þegar fólk er upptekið af stýra heilu landi. En þá er gott að eiga fólk eins og Gunnu Ö. til að taka kefli og hlaupa með hérna í gegnum þingið, og núna fólk eins og Hönnu Katrínu Friðriksson sem gerði þetta mál að sínu og er nú að sigla því í land með góðri aðstoð margra þingmanna sem eru líka með eyrun opin.

Þetta skiptir máli, ekki bara vegna þess hóps sem um ræðir, hópsins sem getur átt á hættu að lenda í þessum bælingarmeðferðum — orð skipta máli. Það er eiginlega hálfandstyggilegt að við þurfum að kalla þetta það en þetta heita þær. Þetta eru skottulækningar í besta falli. Þetta er ofbeldi, þetta eru pyndingar, ef við ætlum að fara að rýna almennilega í kjölinn. Þetta er upplifun sem við eigum ekki að bjóða neinu fólki upp á og þess vegna er mikilvægt að lögfesta bann við þeim. En þetta skiptir samfélagið í heild máli vegna þess að fólkið sem hatar, fólkið sem vill gera samfélagið verra brýnir tennurnar á þeim sem minnst mega sín. Það er eiginlega sama hvaða hatur við sköfum upp í samfélaginu, það á einhvern veginn allt sama lögheimili. Það eru sömu einstaklingarnir sem hata útlendinga og trans krakka. Teljum bara upp alla fordómana sem okkur dettur í hug; það eru sömu aðgangarnir á Facebook á bak við þetta allt saman. Þess vegna skiptir svo miklu máli að segja stopp hér á fyrsta skrefi til þess að hatrið nái ekki að grassera, nái ekki að búa um sig, nái ekki að dafna upp í það að breiðast út.

Því tengt langar mig líka að nefna, vegna þess að það var svo áberandi og óvenjulegt safn umsagna sem barst við þetta mál, það er sjaldan sem við fáum jafn mikið af umsögnum erlendis frá í þinglegri meðferð frumvarpa á Alþingi. En það endurspeglar það að við erum að tala um bakslag sem á sér alþjóðlegar rætur. Við erum að tala um anti-trans hreyfingu í þessu tilviki. En sama mætti segja um, held ég, alla fordómafulla og hatursfulla hópa. Við erum að tala um anti-trans hreyfingu sem teygir sig víða um lönd og sækir styrk í það. Í þessu tilviki þá birtist það sem betur fer bara í því að umsagnirnar urðu hálfkauðskar og hljómuðu allar eins og einhverjar lélegar eftirhermur af bresku anti-trans röfli. Maður sá ekki alveg hvernig þetta átti allt við íslenskt samhengi. En við skulum hafa þetta í huga um, við skulum hafa það í huga að þegar við hér á Alþingi ætlum að stíga skref í átt til aukinna mannréttinda á næstu árum megum við eiga von á því að bakslagið taki á sig aðrar myndir en við kannski þekkjum frá fyrri tíð, þessa alþjóðlegu mynd samstöðunnar um afturhaldið á milli landa. Við þurfum að vera tilbúin að taka á móti. Það gat allsherjar- og menntamálanefnd svo sannarlega í þessu tilviki, vann málið til betri vegar.

Ég segi nú bara eins og öll sem hafa talað hér á undan mér: Ég hlakka til að ýta á hnappinn sem gerir þetta frumvarp að lögum seinna í dag. Mig langar aftur að segja: Takk, Hanna Katrín og ja, takk, Jóhanna, takk, Gunna Ö. Takk þið öll sem hafi gengið á undan okkur og stigið skrefin sem við byggjum þetta á.