Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu hér. Hún hefur verið mjög áhugaverð og góð og ég styð heils hugar markmið þessa frumvarps. Ég tel mikilvægt að vinna bug á fordómum og ofbeldi sem viðgengst því miður gegn hinsegin fólki, en sem betur fer erum við Íslendingar nú það lánsamir að búa í landi sem er eitt besta landið í heiminum til þessa búa í fyrir þá sem eru samkynhneigðir. Við höfum fengið ömurlegar fréttir frá Afríku. Við vorum t.d. að ræða nú fyrir stuttu í utanríkismálanefnd um löggjöf í Úganda sem er því landi algerlega til skammar. Ég hef talað fyrir því, bæði hér í þingsal og í utanríkismálanefnd, að Ísland verði að taka upp viðræður við þessi lönd sem við erum að styðja í þróunaraðstoðinni, Síerra Leóne, Malaví, Úganda. Þar viðgengst alveg ótrúlegt ofbeldi gagnvart konum, ungum konum, og gagnvart samkynhneigðum. Með þessari löggjöf í Úganda, sem þeir hafa sett þar, er það hreinlega refsivert að vera samkynhneigður í því landi.

Varðandi Síerra Leóne og Malaví: Í Síerra Leóne er verulega hátt hlutfall þar sem ungar stúlkur eru umskornar og það sama á við í Malaví. Þar eru t.d. barnahjónabönd, þau viðgangast þar. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri til þess að koma því á framfæri við þessi samstarfslönd okkar að við sættum okkur ekki við þetta. Ég hef óskað sérstaklega eftir minnisblaði í utanríkismálanefnd um það hvernig við og utanríkisráðuneytið höfum komið því á framfæri við stjórnvöld í Malaví, Síerra Leóne og Úganda að við sættum okkur ekki við þá hluti sem viðgangast þar. Við verðum að taka þessa umræðu, hvort við eigum hreinlega að draga okkur út úr þróunaraðstoðinni eða setja meiri kraft í fræðslu í þessum löndum. Ég vildi bara segja þetta í þessari umræðu vegna þess að mér finnst þetta tengjast.

En eins og ég segi þá styð ég heils hugar markmið þessa frumvarps en ég verð að segja það að breytingar á hegningarlögum verða að vera vel ígrundaðar og byggja á víðtæku samráði og á það finnst mér hafa skort í þessu máli. Hér er búið að rekja umsögn refsiréttarnefndar og ég tek undir þær athugasemdir, herra forseti. Ég hefði viljað sjá að farið hefði verið betur yfir þetta í nefndinni af því að þetta eru náttúrlega mjög mikilvægar ábendingar sem við getum ekki horft fram hjá. Það er t.d. sagt hér að ekki sé vikið að eðli eða umfangi bælingarmeðferðar hér á landi og ég ætla svo sannarlega að vona að þetta sé ekki í gangi á Íslandi. Ég get náttúrlega ekki fullyrt um það en ég held að það sé afar lítið, vonandi. En við höfum fengið sláandi lýsingar hér í þessari umræðu um hvað viðgengst í þessari bælingarmeðferð, sem er alveg ótrúlegt.

Refsiréttarnefnd segir hér í umsögn sinni:

„Refsiréttarnefnd bendir á hinn bóginn á að í frumvarpinu er ekki vikið að eðli eða umfangi bælingarmeðferða hér á landi og verður því ekki að mati nefndarinnar séð, að svo komnu máli, að refsiábyrgð, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, sé nauðsynleg eða farsælasta aðferðin við veita þá vernd sem að er stefnt.“

Jafnframt segir:

„Þá kemur fram í frumvarpinu að á hinum Norðurlöndunum sé til skoðunar hvort lögfesta eigi lagaákvæði um bann við bælingarmeðferðum. Það er álit refsiréttarnefndar að rétt sé að fylgjast með og taka mið af réttarþróun í öðrum Evrópuríkjum, einkum Norðurlöndunum, áður en það skref er stigið sem nú er lagt til.“

Þetta finnst mér vera mikilvægur punktur. Einhverjir hafa sagt hér að við eigum ekkert að vera að bíða eftir Norðurlöndunum. Það er alveg sjónarmið út af fyrir sig. En svo nefnir nefndin hér þrjú atriði sem hún vill draga fram varðandi frumvarpið og þar segir:

„Í fyrsta lagi er æskilegt að hugtakið „meðferð“ sé skilgreint og afmarkað nánar en nú er gert.“

Og svo segja þeir í öðru lagi að frumvarpið geri ráð fyrir víðtækri refsiábyrgð og „æskilegt væri að frumvarpið væri skýrara um ábyrgð foreldra/forsjáraðila í þessu sambandi og undir hvaða kringumstæðum refsiábyrgð þessara aðila gæti mögulega stofnast“. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægur punktur sem má alls ekki horfa fram hjá, sem sagt undir hvaða kringumstæðum refsiábyrgð þessara aðila gæti mögulega stofnast. Það má ekki vera neinn vafi þar á.

Síðan segir:

„Í þriðja lagi verður ekki ráðið af frumvarpinu að tekin hafi verið afstaða til þess að hvaða marki sú háttsemi, sem frumvarpið lýsir, er nú þegar refsiverð að íslenskum lögum samkvæmt almennum hegningarlögum en einnig samkvæmt sérlögum, svo sem löggjöf sem gildir um heilbrigðisstarfsfólk og -þjónustu eða barnavernd. Bendir refsiréttarnefnd í því sambandi á að ef háttsemi sem lýst hefur verið refsiverð fellur undir efnislýsingu fleiri en eins refsiákvæðis kann slíkt að valda vandkvæðum í framkvæmd enda kann þá vafi að leika á því hvaða lagaákvæði skuli beita.“

Þetta eru hlutir sem þarf að laga að mínum dómi. Svo segir í lokin í áliti refsiréttarnefndar að mikilvægt sé að fylgjast grannt með þróun evrópskrar og þá ekki síst norrænnar löggjafar áður en refsiákvæði laga um bælingarmeðferð eru fest í íslensk lög.

Það er mat nefndarinnar að ýmis atriði í frumvarpinu í núverandi mynd séu ekki nægilega skýr sem og að leiðbeiningar um túlkun og efnisafmörkun frumvarpsins í greinargerð þyrfti að vera fyllri. Ég er mjög sammála þessari umsögn og mér finnst nauðsynlegt að taka tillit til hennar áður en má málið nær fram að ganga. Að vísu er fresturinn lengdur og hægt að nýta þann tíma, en eru það kannski ekki vinnubrögð sem við hefðum í raun og veru átt að koma í veg fyrir? Hefðum við ekki átt að gefa okkur aðeins meiri tíma í þetta og fara gaumgæfilega yfir þessa umsögn refsiréttarnefndar og reyna að laga þá allar þær athugasemdir sem þar koma fram, því að við verðum náttúrlega að átta okkur á því að við erum að breyta hegningarlögum? Það verður að vera vel ígrundað, eins og ég segi, og byggja á víðtæku samráði.

Þetta er mitt innlegg inn í þessa umræðu, herra forseti. En ég vil bara ítreka það hér að lokum að ég styð markmið þessa frumvarps og vona svo sannarlega að það nái fram að ganga. Að því sögðu þá vona ég svo sannarlega að þegar þetta frumvarp verður að lögum verði ekki nein vafaatriði, eins og nefndin segir, sérstaklega varðandi útfærsluna:

„Verður því ekki að mati nefndarinnar séð, að svo komnu máli, að refsiábyrgð, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, sé nauðsynleg eða farsælasta aðferðin við að veita þá vernd sem að er stefnt.“

Það er náttúrlega það sem maður veit ekki. En þessar lýsingar sem við höfum heyrt af þessu, sem koma erlendis frá, eru náttúrlega algjörlega sláandi, svo að ég segi það enn og aftur, og eiga ekki að viðgangast.

Að þessu sögðu vona ég að þetta nái þeim tilgangi sem til er ætlast án þess að það verði nein vafaatriði sem varða þá refsiþáttinn, sérstaklega þegar það snýr að fjölskyldumeðlimum og þeim sem standa næst viðkomandi.