154. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2023.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:02]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við lifum á umbrotatímum og viðfangsefni okkar stjórnmálamanna eru eftir því. Við þessar aðstæður er hætt við að við missum trú á þeim grunngildum sem við höfum aðhyllst lengi. Við förum að trúa því að áskoranir samtímans kalli á önnur gildi og nálgun. Og því miður sannfærast stjórnmálamenn um að svarið felist í meiri afskiptum þeirra.

Það er víst nóg af þeim sem eru svo sannfærðir um eigið ágæti og hafa svo litla trú á samborgurum sínum að þeir vildu helst stýra lífi þeirra eftir sínu höfði. Þeir dulbúa stjórnlyndi sitt gjarnan sem umhyggju og mannúð. Ef samborgarar þeirra láta þeim aðeins í té örlítið meira af innkomunni, ef borgararnir eru til í að gefa þeim ogguponsu meiri völd, er þeim lofað áhyggjulausu ævikvöldi.

Í þessari viðleitni reyna ýmsir að draga upp átakalínur á milli hægri og vinstri. Nánast daglega flytja fjölmiðlar okkur fregnir af ógeðfelldum verkum og skoðunum manna sem þeir kalla gagnrýnislaust hægri öfgamenn og það þrátt fyrir að viðkomandi aðhyllist reyndar aukna miðstýringu og hafi ímugust á grundvallarréttindum frelsisins, sem er algjör andstæða frjálslyndis og hægri stefnu.

En átök samfélagsins í dag eru þvert á alla ása, þvert á hægri og vinstri. Og þar hefur öllu verið snúið á hvolf. Eða voru það ekki annars vinstri menn sem hér áður fyrr veifuðu íslenska fánanum og hömpuðu íslenskri tungu og menningararfi? Innblásnir af þjóðerniskennd, óttaslegnir yfir erlendum yfirgangi og áhrifum, hvort sem það var alþjóðlegt samstarf eða erlent sjónvarpsefni.

Frú forseti. Raunveruleg átök snúast nefnilega fyrst og síðast um grundvallarréttindi fólks, um frelsið og rétt fólks til þess að lifa lífi sínu og leita hamingjunnar eins og það sjálft vill og hvort fólkið er til í að gefa þessi réttindi eftir í skiptum fyrir það sem það heldur að sé meira öryggi, meiri lífsgæði. Þessi átök eru ekki ný af nálinni. Frá því við losnuðum undan einveldi og ofríki og komum okkur saman um grundvallarreglur til þess að verjast ríkisvaldinu höfum við stöðugt þurft að verjast ágangi valdsins þar sem mannréttindi eru lítils virt, þar sem lífið einkennist af endalausum bönnum, skerðingum og jafnvel ofbeldi. En jafnvel á þessum stöðum í samtímanum hefur tekist að auka efnisleg lífsgæði fólks um skamma hríð og það er sorglegt að við höfum þessi dæmi í dag.

Víða um heim á lýðræði í vök að verjast og meira að segja hér á Vesturlöndum eiga hornsteinar lýðræðisins eins og frjáls skoðanaskipti undir högg að sækja. Það er ógnvænleg heimsmynd og þróun sem okkur hugnast ekki. Góð, eftirsóknarverð samfélög eru bæði frjáls og örugg og það er þannig sem við búum til mest lífsgæði fyrir okkur öll.

Frú forseti. Við komum hér saman í kvöld til þess að ræða stefnu, í hvaða átt við viljum halda sem samfélag. Í því samhengi er gott að líta um öxl og rifja upp ákvarðanir sem hafa reynst okkur Íslendingum gæfuspor. Fyrst heimastjórn, fullveldi og að lokum fullt sjálfstæði. Virkjun fallvatnanna og hitaveita, orkuskipti síns tíma, koma líka upp í hugann. Þær ákvarðanir eru góð áminning nú þegar við höfum sett okkur háleit markmið um að losa okkur við jarðefnaeldsneyti en höfum hins vegar ekki fjárfest í orkuframkvæmdum til að fylgja markmiðunum eftir. Aðildin að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu kemur upp í hugann og aðild að NATO ekki síður. Allt eru þetta framfarir þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið í fararbroddi, oft við mikla andstöðu. Þessar ákvarðanir voru vörður á leið til velsældar, enda erum við óumdeilanlega ein auðugasta og lánsamasta þjóð heims. Það er ekki síst að þakka staðfestu, dugnaði og hugrekki þeirra kynslóða sem á undan gengu og stjórnmálamanna sem tóku gæfuríkar ákvarðanir.

Enginn sér gegnum þoku tímans. Sama hvaða tækifæri og áskoranir framtíðin ber í skauti sér fyrir okkur Íslendinga ættum við áfram að hafa tímalausa visku kristinna gilda að leiðarljósi; náungakærleikann og bjartsýnina, vonina og trúna á það að saman getum við skapað betri morgundag, öflugra samfélag sem við skilum svo í hendur komandi kynslóða.

Sú gæfa sem breytti landinu á skömmum tíma úr einu fátækasta ríki Evrópu í það ríki þar sem lífsgæði eru einna mest á byggðu bóli — megi sú gæfa áfram fylgja Íslandi. — Takk fyrir að hlusta.