154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samningar á vinnumarkaði á Íslandi eiga ekki að snúast um kröfugerð á íslenska ríkið. Aðilar á vinnumarkaði eiga að semja um kaup og kjör sín í milli án aðkomu ríkisins. Reyndar er það skrifað út í lög að það er ólöglegt að hafna gerð kjarasamninga með vísan til þátta sem ekki hafa með kjarasamninginn sjálfan að gera. En hv. þingmaður eins og margir aðrir vilja þvæla þessu öllu saman í sömu skál og grauta þessu þannig til að það sé á ábyrgð ríkissjóðs að semja við hinn almenna vinnumarkað. Það er bara einfaldlega ekki þannig.

Hins vegar hefur ríkisstjórnin stutt við gerð ábyrgra kjarasamninga með aðgerðum sem samrýmast stefnu stjórnarinnar, eins og við erum í dag að gera með uppbyggingu nýrra íbúða með því að gera breytingar á tekjuskattskerfinu. Nýtt lægsta þrep tekjuskattskerfisins er afurð af samtali en stefnan var sú að lækka tekjuskatt, sömuleiðis þær breytingar á tekjuskattskerfinu sem ég hef hér rakið. Þannig að ríkisstjórnin er með góða sögu að segja af samskiptum sínum við vinnumarkaðinn um stanslausan kaupmátt launa ár eftir ár. Vöxturinn hefur verið stanslaus á hverju ári í tíu ár. Í augnablikinu er þessari stöðu ógnað hins vegar af verðbólgutölunum og það ber að taka alvarlega og verst er staða þeirra sem eru með há húsnæðislán. Ekkert hagsmunamál er stærra fyrir þann hóp en það að við náum tökum á verðbólgunni og þess vegna er skynsamlegt að beita aðhaldssömum aðgerðum eins og t.d. þeim að hagræða um 17 milljarða í ríkisfjármálum. Það mun skila sér beint í baráttunni gegn verðbólgu.

Ég hafna því algerlega sem hér er haldið fram, að þessir 17 milljarðar muni skerða velferðarþjónustuna í landinu. Það er af og frá og ekki nokkur einasta innstæða fyrir því, eða að þessir 17 milljarðar muni á endanum endurspeglast í hærri launakröfum á vinnumarkaði. Þetta er bara einhver útópísk hugmynd sem á sér enga innstæðu, gripin úr lausu lofti og hefur ekkert erindi inn í umræðuna. Algjör tilbúningur sem hefur engin (Forseti hringir.) tengsl við raunveruleikann. Hér er vísað til norræna módelsins, (Forseti hringir.) gerum bara endilega meira að því að bera kjör íslenskra launamanna (Forseti hringir.) við þau sem eru á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) og þá munu menn sjá hversu vel við erum stödd á Íslandi.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna á að þó að gefinn hafi verið rýmri ræðutími í andsvörum og svörum þá er hann ekki ótakmarkaður.)