154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að framfærsla almannatrygginga skuli hækka um 4,9% um næstu áramót vegna spár um verðbólgu á árinu 2024. Annars staðar í frumvarpinu er miðað við þróun verðlags og launa á yfirstandandi ári til að áætla launa- og rekstrarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári, breytingu á persónuafslætti og skattþrepamörkum. Hvers vegna eru öryrkjar og eldri borgarar teknir út fyrir sviga að þessu leyti og þeirra kjör uppfærð umtalsvert minna en aðrir tekju- og útgjaldaþættir fjárlagafrumvarpsins? Hvers vegna er ekki miðað við verðlags- og launaþróun á yfirstandandi ári þegar kemur að lífeyri almannatrygginga? Hvernig stendur á þessum mun?