154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í júní á síðasta ári kynnti ríkisstjórnin aðgerðir gegn verðbólgunni til aðstoðar þeim sem komu illa út úr verðbólguþróuninni. Þá var verðbólgan í 7,6%. Hún fór snarhækkandi í kjölfarið, eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um aðgerðir. Fyrir fjárlagafrumvarpið í fyrra var langur listi af alls konar seinkunum á aðgerðum og ýmsu svoleiðis, stafrænni þróun og því um líku sem átti að hjálpa til. Breytti engu. Nú erum við að sjá nákvæmlega sama lista aftur. Verðbólgan er ekki komin niður fyrir það sem hún var í júní í fyrra þegar ríkisstjórnin tilkynnti um aðgerðir gegn verðbólgunni. Ég er bara gaur sem skilur ekki neitt og átta mig ekki alveg á því hvernig aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hún kynnti fyrir rúmlega ári síðan hafa bara hækkað verðbólguna, hún er ekki enn þá komin niður fyrir það sem hún var þá, né heldur á því af hverju það hafa verið átta stýrivaxtahækkanir síðan þá. Mér finnst það mjög skrýtið. Ég bara velti fyrir mér: Var eitthvert vanmat í gangi? Það voru allar viðvörunarbjöllur í gangi í samfélaginu um hver verðbólguþróunin væri, eins og hún reyndist svo vera, merkilegt nokk, og allar líkur eru á því að verðbólgan í lok þessa mánaðar muni hækka. Hún mun líklega lækka í október, standa í stað í nóvember eða svo, hver veit með desember og útsölurnar í kjölfarið o.s.frv. Þannig að við erum á skrýtnum stað núna. Eftir allar þessar aðgerðir, sömu aðgerðir og við sáum fyrir síðustu fjárlög, er verðbólgan enn þá hærri en hún var þegar ríkisstjórnin kynnti fyrst aðgerðir gegn verðbólgunni. Hvers vegna er það?