154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er fleira sem ég skil ekki. Dálítið merkilegt, er það ekki? Hérna segir ráðherra að tekjur hafi hækkað umfram væntingar. Samt heyrðum við væntanlega öll ræðu hæstv. mennta- og barnamálaráðherra í gær. Það var mjög áhugaverð ræða. Ég klóraði mér aðeins í hausnum og þurfti aðeins að líta upp í ræðustól Alþingis og athuga hvort það væri ekki örugglega ráðherra í þessari ríkisstjórn að tala um stöðu menntamála. Ef ríkisstjórnin er að segja: Fyrirgefið, fjármálaráðherra segir að við höfum engin áhrif á fjármálaþróunina, verðbólguþróunina, en samt er ríkisstjórnin að koma með einhverjar tillögur um það hvernig eigi að hafa áhrif á hana og stærir sig af því, eru það þá ekki dálítið stolnar fjaðrir ef ríkisfjármálin hafa engin áhrif á þetta hvort eð er?

Þetta er rosalega tvískipt umræða sem er í gangi hérna. Í umræðum um stefnuræðuna í gær baunar fjármálaráðherra á hægri hluta stjórnarandstöðunnar, það sé ekki nægt aðhald, og að vinstri hluti stjórnarandstöðunnar vilji bara hækka skatta. Það er dálítil pólitísk tvískipting þarna í gangi, vissulega. En aldrei heyrum við rökin á bak við það af hverju það er góð hugmynd, sem mér fannst koma í ljós í ræðum stjórnarandstöðunnar hérna í gær, af hverju það er góð hugmynd að hafa meira aðhald á réttum stöðum, af hverju það er góð hugmynd að hækka skatta á réttum stöðum þar sem fjármagn safnast saman og myndar bólur. Þar hefur ríkisstjórnin efnahagsstjórnarhlutverki að gegna. Þess vegna skil ég ekki af hverju ríkisstjórnin beitir því ekki.