154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:49]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er viðbótarkrafa á ráðuneytin. Það voru líka þó nokkrir milljarðar sem fóru í að fjölga hér ráðherrastólum. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt í stóru myndinni en í ljósi þeirra stóru talna sem er verið að leggja fram — voru það ekki 5, 6 milljarðar sem á að spara í launalið? Þetta er svipuð tala og var sett inn í ný ráðuneyti hérna á sínum tíma. Þetta er auðvitað bara broslegt í því samhengi.

Að því sögðu ætla ég ekki að láta stilla mér upp við vegg, eins og Samfylkingin sé á móti erfiðum hagræðingarákvörðunum í rekstri ríkissjóðs. Við erum bara að reyna að beina umræðunni inn í almenna pólitíska orðræðu sem snýr að velferð og sköttum. Þegar við erum að tala um aðhald þá viljum við að það komi fram, eins og allir hagfræðingar í landinu vita, að það er til aðhald á fleiri stöðum en á útgjaldahliðinni og það er alveg hægt að sækja tekjur þar sem svigrúm er þessa dagana. En það er einfaldlega ekki vilji til þess að gera það og þar getum við vel tekist á. Samfylkingin óttast ekki þá umræðu eins og sumir held ég að haldi.