154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða spurningu hjá hv. þingmanni. Ég er 100% sammála að það er hægt að fara betur með fjármagn í heilbrigðiskerfinu. Það væri til að mynda hægt að byrja með að setja á innra eftirliti á Landspítalanum sem hefur ekki verið gert af þessari ríkisstjórn, þrátt fyrir að hafa margtalað um að það sé leið til að fara betur með fé. Það væri líka hægt að auka rekstrarfjármagn sem fer til Sjúkratrygginga Íslands sem gerir það betra og auðveldara fyrir stofnunina að auka eftirlit með öllum þeim skattpeningum sem renna í gegnum þá stofnun, tugir milljarða króna, hundruð milljarða króna, og hefur verið kvartað yfir. Þannig að það er klárlega hægt að bæta þar úr þörf.

Ég vil líka benda í því samhengi á þá staðreynd að það er margfaldur kostnaður að geyma eldra fólk þessa lands á göngum Landspítala, margfaldur kostnaður á við að vera á hjúkrunarheimili, hvað þá margfaldur kostnaður af því að vera í heimahjúkrun og báðir þeir liðir eru vanfjármagnaðir í þessum fjárlögum. Það eru ekki aukin framlög til heimahjúkrunar. Það heldur ekki í við verðlag í landinu. Það er ekkert átak í heimahjúkrun í þessu landi. Þannig að það er bara heilmargt einmitt sem Samfylkingin telur sig geta gert betur við núverandi fjármagn.