154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni, 1. þm. Norðvest., fyrir andsvarið. Varðandi gistináttagjaldið, já, ég tel að það sé eðlilegt að taka það upp og það mætti vera hærra. Ég fagnaði því sérstaklega að það sé komið á skemmtiferðaskipin og ég tel að það verði mikil lyftistöng, ekki síst úti á landi þar sem skemmtiferðaskipin koma, stoppa stutt við og skilja eftir lítið fé á þessum svæðum, kannski í mesta lagi ein rútuferð eða kaffibolli. Ég tel að þetta sé byrjun á einhverju og verði vonandi meira í framtíðinni.

Ég tel að við þurfum að gera stórátak varðandi hjúkrunarheimilin, það er ekki nóg að gert og við þurfum að horfast í augu við staðreyndir um öldrun þjóðarinnar, gríðarlega fjölgun aldraðra sem mun eiga sér stað á næstu árum. Ég kom inn á það í ræðu minni að þörf sé á 700 nýjum hjúkrunarrýmum og það er bara á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum.

Varðandi sanngjarnt veiðileyfagjald þá tel ég að það eigi að fara á svokallaða „ebítu“, EBITDA, hagnað fyrirtækja fyrir afskriftir og skatta. Hversu hátt á það að vera? Ég tel að það sé of lágt í dag. Fjárhæðin, við höfum komið með þá tillögu í fjárlagavinnunni á hverjum tíma, gerðum það í fyrra og munum gera það aftur núna, erum ekki búin að móta tillöguna algerlega. En það mun ekki skaða — við erum að tala um auðlindarentu. Fyrirtækin fá afhentan kvóta til að veiða og borga sérstaklega fyrir það. Varðandi flokkana þá á t.d. að gefa strandveiðar frjálsar og taka þær út fyrir kvótasetninguna. Af hverju? Af því að handfæraveiðar með kyrrstæðum veiðarfærum, með 15, 16 króka á bát, ógna ekki fiskstofnum við landið. Þá mætti hugsa sér einhverja prósentu þar á lönduðum afla við löndun sem er staðgreidd. Ég er ekki með það á hreinu hversu hátt gjaldið eigi að vera en það breytir því ekki að ég tel að sameiginlegur sjóður landsmanna fái ekki sanngjarnt gjald í dag. Það er of lágt til þess. Við sjáum það á stórkostlegum hagnaði fyrirtækjanna. Það hefur slæm áhrif úti í samfélaginu að þau nánast ryðja öðrum út varðandi fjárfestingarmöguleika, geta keypt allt upp. Ég vona að hv. þingmaður taki þátt í vinnunni og styðji okkur varðandi strandveiðimennina í okkar kjördæmi.