154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af svörum hv. þingmanns má dæma að Vinstrihreyfingin – grænt framboð styðji kjaragliðnunina sem hefur verið út af nákvæmlega þessu atriði, að verið er að áætla lífeyrisþegum í landinu lægri kjarauppbót heldur en öllum öðrum. Allar aðrar hækkanir eru miklu hærri. Auðvitað vita allir að það var hækkun á miðju ári. Af hverju var það? Af því að verðbólga var vanáætluð. Kannski gæti hv. þingmaður sagt mér, ef verðbólgan verður 6 eða 7% á næsta ári, hvort Vinstrihreyfingin – grænt framboð muni stuðla að því að öryrkjar og aldraðir fái hækkun miðað við raunverðbólgu og þá líka frá 1. janúar, frá áramótum, ekki frá 1. maí eða frá miðju ári. Mun Vinstrihreyfingin – grænt framboð stuðla að því að öryrkjar og aldraðir fái lífeyri í samræmi við raunverðbólgu á næsta ári, sem mun kannski koma í maí, og það yrði frá 1. janúar?

Við getum farið yfir baráttuna gegn verðbólgu. Það var talað um að við værum að ná árangri gegn verðbólgunni, en hvaða „við“ er verið að tala um? Ríkisstjórn Íslands er ekki að berjast gegn verðbólgu. Fjármálaráðherra landsins telur það ekki vera hlutverk sitt að berjast gegn verðbólgu. Það eina sem hann hefur sagt er að það komi meira í kassann en það verði ekki sett aftur út. Þetta er sá maður sem horfir á brennandi hús en ætlar ekki að skvetta vatni á eldinn. Svo kemur hv. þingmaður og talar um okkur? Seðlabanki Íslands er með 9,25% stýrivexti í landinu og það er eina baráttan gegn verðbólgu sem íslensk stjórnvöld eru í. Ríkisstjórn Íslands er áhorfandi að verðbólgunni. Það er enginn árangur hjá ríkisstjórn Íslands hvað varðar baráttuna gegn verðbólgu.