154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér fannst ræða hæstv. menntamálaráðherra rosalega áhugaverð af því að hann talaði um stöðu barna og ungmenna og ætlar að leysa einhvern veginn stöðuna, ég veit ekki, um námsárangur í grunnskólum með sameiningu í framhaldsskólum. Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp. Mér finnst það dálítið áhugaverð útfærsla á þessu öllu.

En þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það eru þessir grunninnviðir sem við erum öll sammála á Íslandi að þurfi að sinna á góðan hátt. Löggæslan, dómstólar, réttarkerfið, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, öryggisnetið okkar. Önnur þjónusta er tvímælalaust eitthvað sem þarf að vera skilgreint á þann hátt að sé kannski tilfallandi atriði. En við fáum ekki góða greiningu á því hvar þetta liggur. Hvar er kostnaðarmatið? Hvar erum við í þjónustustiginu í heilbrigðiskerfinu miðað við það sem við vildum vera? Þá getum við metið hvort við séum í rauninni með skerta þjónustu eða ekki. (Forseti hringir.) Við fáum ekki í rauninni þessa þjónustuskuld uppgefna í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) og hverjir í rauninni vextirnir eru á þeirri þjónustuskuld.