154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla stuttlega að koma inn á nokkur sjónarmið varðandi fjárlögin sem nú liggja fyrir í þessari fyrstu ræðu hér við meðferð þeirra. Það er auðvitað töluverður vöxtur í útgjöldum á milli ára og ég hef haft það á orði að Seðlabankinn hafi sennilega aldrei verið meira einsamall í slagnum við verðbólguna heldur en — ætli það séu ekki tvær vikur síðan, rétt u.þ.b., sem fjármálaráðherra sagði, þótt hann hafi nú að einhverju marki dregið úr þeim orðum á seinni stigum, að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að eiga við verðbólguna, það væri lögbundið hlutverk Seðlabankans.

Þessi fjárlög birtast síðan og undanfari þeirra var kynning á þessum 17 milljarða aðhaldsaðgerðum sem ég gerði nú góðlátlegt grín að að næðu ekki því 25 milljarða marki sem hæstv. fjármálaráðherra hafði tilgreint sem lágmarkstölu til að leggja eitthvað sem raunverulega skiptir máli af mörkum í baráttunni við verðbólguna í lokaræðu sinni við frágang fjármálaáætlunar í júní síðastliðnum. Ráðherrann, svo því sé haldið til haga, af því að hæstv. ráðherra er ekki hér í salnum, vildi meina að þetta væri ósanngjörn gagnrýni hjá mér, hann væri auðvitað að líta á þetta sem viðbót við aðrar aðgerðir í fjármálaáætlun í baráttunni við verðbólgu. En það var auðvitað raunin með alla aðra sem komu með tillögur ofan á þegar samþykktar tillögur þingsins síðastliðið vor þannig að það verður að setja sömu mælistiku á okkur öll í þessari umræðu.

Nú liggja fyrir 1.394 milljarða útgjalda fjárlög þessa árs. Til gamans skoðaði ég fjárlög síðasta árs og kannski áður en ég kem að því þá hringdi í mig maður áðan og spurði hvers lags flón ég væri að vera ekki með það á hreinu hver heildarútgjöld ríkissjóðs væru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, það stæði á bls. 3 eins og hæstv. fjármálaráðherra svaraði andsvari mínu í morgun hvað efnið varðar. Auðvitað vissi ég hver heildarútgjöldin eru samkvæmt þessu frumvarpi. En ástæða þess að ég vildi fá hæstv. fjármálaráðherra til að segja þetta með beinum hætti í pontu var að einhverra hluta vegna, hvort sem það hefur verið til að bæta ásjónu kynninga eða framsöguræðna, þá hefur hæstv. fjármálaráðherra skautað fram hjá því að nefna heildarútgjöld ríkissjóðs, að mér sýnist, í öllum ræðum og kynningum í tengslum við framlagningu þessa frumvarps og sömuleiðis frumvarpsins í fyrra. Þannig að auðvitað blasir við, og formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, veit það, að útgjöldin eru orðin stjórnlaus og hafa verið það um nokkra hríð. En ráðherranum er auðvitað vorkunn að vera í samstarfi við útgjaldasjúka flokka sem ég tel vera í samstarfsflokkunum, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Framsóknarflokki.

Ef við berum saman framlögð fjárlög milli ára, síðasta árs og þessa, er útgjaldaaukningin 188 milljarðar eða 15,6% á milli ára. En það segir ekki alla söguna því að við megum ekki gleyma því að í fyrra varð gríðarleg breyting á fjárlögum á milli 1. og 2. umræðu og sú breyting var að meginhluta til — ég held að rúmlega 95% af þeirri breytingu hafi komið til vegna tillagna fjármálaráðherra sjálfs. Þær komu úr fjármálaráðuneytinu. Ég vil brýna hv. fjárlaganefnd í því að spyrna við fótum ef einhver viðlíka aðgerð birtist með póstsendli úr fjármálaráðuneytinu. En ég verð nú að viðurkenna að ég trúi því varla að það sé líklegt annað árið í röð að svo mikla skekkju þurfi að leysa á milli framlagningar og 2. umræðu fjárlaganna. Ég nefni þetta bara í því samhengi að fjárlaganefndin fær þetta nú til vinnslu en þær verða að vera á forsendum þingsins, ef svo má segja, að meginhluta til þær breytingar sem gerðar verða en ekki þannig að það komi bara tilkynning úr ráðuneytinu sem segir: Heyrðu, fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram hérna sem 1. þingmál um miðjan september skiptir í rauninni engu máli, við áttum eftir að gera svo miklar breytingar að nú eruð þið búin að tala ykkur hás hér dögum saman en það var um plagg sem er úrelt. Ég bara vona að það verði ekki staðan aftur.

Mönnum verður tíðrætt um frumjöfnuð í þeirri umræðu sem nú á sér stað. Auðvitað er það heildarjöfnuðurinn sem skiptir máli, skárra væri það nú að menn væru ekki með frumjöfnuðinn í þokkalegu standi núna þegar efnahagslífið, atvinnulífið, hefur loksins fengið að spretta úr spori eftir þær íþyngjandi aðgerðir sem það varð fyrir í gegnum heimsfaraldur Covid. Til að setja það í samhengi fyrir þá sem eru að hlusta: Frumjöfnuður er í rauninni rekstrarafkoma ríkissjóðs án fjármagnsliða. Þegar skuldasöfnunin er eins og hún hefur verið — í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni síðastliðið vor var það teiknað upp að uppsafnaður halli ríkissjóðs á fjárlögum frá 2020 til og með 2027, miðað við þá samþykkta fjármálaáætlun, væri 826 milljarðar, 826.000 milljónir. Að núvirði er þetta vel yfir 1.000 milljarðar myndi ég ætla þannig að heildarskuldir ríkissjóðs hafa aukist verulega og þar af leiðandi auðvitað vaxtaberandi skuldir og kostnaður af vöxtum vegna þeirra.

Það varð nokkur umræða áðan um að heildarvaxtagjöld ríkissjóðs reiknuð til útgreiðslu væru rúmir 111 milljarðar, ég held að sú tala hafi verið nefnd, en tæplega 60 milljarðar til útgreiðslu. Hitt er eitthvað sem kemur til síðar en engu að síður eru þessir tæplega 60 milljarðar sem eru til útgreiðslu alvörutala sem er markmið í sjálfu sér að vinna á. Reynum að setja það í samhengi við heimilisbókhald. Ég þekki enga hagsýna húsmóður sem kemur á fjölskyldufund undir mánaðamót og segir: Ja, frumjöfnuðurinn okkar var bara nokkuð góður þennan mánuðinn, við eigum að vísu ekki fyrir vöxtunum en frumjöfnuðurinn var góður.

Horfum á heimili sem er með tvær fyrirvinnur í ágætum tekjum, 1 milljón hvor, 2 millj. kr. í heimilistekjur á ári. Setjum þetta hlutfall í samhengi þar sem hallinn er 46 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir, eins og það er orðað hér: Heildarjöfnuður er neikvæður um 46,3 milljarða. Bara rétt að halda því til haga, það kom fram í hinu ágæta hlaðvarpi Þjóðmálum í gærkvöldi að það eru önnur gögn sem virðast teikna upp þá stöðu að þetta séu 56 milljarðar neikvæðir. En höldum okkur við þá 46 milljarða kr. sem eru tilgreindir í fjárlögunum sem liggja fyrir. 46 milljarðar og við setjum það í samhengi við heildartekjur upp á 1.348 milljarða. Þá er það 3,4% halli miðað við heildartekjur. Þetta heimili sem er með tvær milljónir í mánaðartekjur, 24 milljónir á ári, þyrfti að hækka yfirdráttinn um 816.000 í árslok bara til að eiga fyrir þeim vöxtum sem ekki væri svigrúm fyrir úr tekjustreymi heimilisins. Þetta setur þetta kannski að einhverju marki í samhengi. Ef það hallar í 1 milljón á heimili með 2 milljóna innkomu á mánuði, sambærilegur hlutfallshalli og kemur fram í þessum fjárlögum, þá er ekki hægt að dusta þetta af sér og segja: Heyrðu, þetta skiptir engu máli. Þetta eru alvörutölur sem hér um ræðir.

Mér hefði þótt glans yfir því ef ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í broddi fylkingar, hefði bara stigið fram og sagt: Heyrðu, atvinnulífið er að ná að spretta úr spori, ástandið er að skána, nú bara setjum við okkur það markmið að ná hallalausum fjárlögum. Það eru allar forsendur til þess núna. Þetta eru 46 milljarðar sem vantar upp á. En það virðist vera svo erfitt að draga úr ríkisútgjöldum, eins og teiknast ágætlega upp í þeirri tölu sem ríkisstjórnin treystir sér til að leggja til í aðhald, og er það þó að meginhluta til fuglar í skógi. Það er að minnstu leyti konkret niðurskurður eða aðhald sem hönd á festir. Þetta eru fuglar í skógi. Það er sameining vinnurýma, það er aðhald í innkaupum. Aðhald í innkaupum er auðvitað eðlilegasti hlutur og á að vera viðvarandi verkefni. Það eru minni ferðalög ríkisstarfsmanna og þar fram eftir götunum. En ég nefni þetta hérna í því samhengi að ég hefði viljað sjá koma hér fram fjárlög — það liggur fyrir þessi 17 milljarða tala um aðhald, það hefði vissulega þurft að rétt tæplega þrefalda hana, en ég hef þá trú að það hefði verið hægt ef raunverulegur vilji hefði verið til staðar. En eins og ég sagði áðan er hæstv. fjármálaráðherra nokkur vorkunn að vera í því samstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn er í núna, því að útgjaldaáhugi samstarfsflokkanna, Vinstri grænna og Framsóknar, virðist vera takmarkalaus.

Mig langar hér, eftir að ljúka þessum hluta er snýr að frumjöfnuði og síðan heildarjöfnuði, að segja nokkur orð varðandi gjaldahækkanir sem eru tilkynntar í bandorminum svokallaða, sem er næsta mál á eftir þessu til meðferðar hér í þinginu. En þetta tengist svo nánum böndum að ég tel að það passi ágætlega inn í þessa ræðu mína hér við þetta tilefni. Ég vil fagna því að hér komi fram tillaga um að þessi svokölluðu krónutölugjöld hækki um 3,5% en ekki til jafns við verðlag eða áætlanir eins og gert var í fyrra. Ég gagnrýndi það töluvert mikið í fyrra að það væri farin sú leið að hækka krónutölugjöld um, mig minnir að talan hafi verið 7,8%, gæti verið smá misminni í því en það er svona nokkurn veginn talan, og ég taldi að það yrði fyrirmynd fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga að gjaldskrárhækkunum hjá þeim. Það varð auðvitað raunin. Þegar þetta blasir við öllum öðrum sem stilla upp sínum verðskrám að ríkissjóður hefur haft forgöngu um að hækka gjaldskrár um allt að 8% yfir línuna þá elta menn það bara. Þess vegna vil ég hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir að leggja fram tillögu að 3,5% hækkun, ekki meira, þannig að það eru líkur til að einhver raunvirðisminnkun verði á þessum tekjustofnum, ég held að talan 3 milljarðar hafi verið nefnd í því samhengi. En þetta sýnir að þetta er hægt að gera þetta. Auðvitað er hægt að tosast til um einhverjar kommur en ég sætti mig ágætlega við 3,5% þó að rökin um undirliggjandi kostnað haldi auðvitað ekki í tilviki allra þessara liða því þeir eru ekki allir beintengdir þróun verðlags á markaði, bara svo ég nefni hér áfengisgjaldið sem dæmi í því samhengi.

Það eru töluverðar breytingar fyrirhugaðar í tengslum við gjaldtöku af ökutækjum og umferð. Það er nú búið að bíða ansi lengi eftir einhverri heildarmynd í þessum málum og ég tel gott að þetta sé loksins að byrja að birtast. Ég held að meginmarkmiðið hljóti að vera það að gera kerfið eins einfalt og hægt er þannig að kostnaður verði sem minnstur, heildarkostnaður af rekstri þess og utanumhaldi. Ég ætla bara enn einu sinni að grípa þetta tækifæri til að gjalda varhuga við því sem hefur verið að birtast í stefnu innviðaráðherra undanfarin ár með svona marglaga gjaldtöku. Það eru svokölluð samvinnuverkefni, það eru jarðgöngin, bæði ný og þegar grafin, og þar rekst hvað á annars horn í stefnu hæstv. innviðaráðherra. Ég er minnugur þess að ráðherrann hélt því fram að það kæmi ekki til greina að leggja gjald á jarðgöng þar sem vegfarendur hefðu ekki annan valkost um leið. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra sæi fyrir sér að setja fjárveitingu í að laga Óshlíðina til að tryggja að hægt væri að taka gjald í Bolungarvíkurgöngum, ég efast um það. Það þarf að nálgast þetta heildstætt, ekki svona bútasaum eins og okkur hefur verið boðið upp á undanfarið.

Síðan bætast ofan á þetta auðvitað þessi furðulegu tafagjöld sem virðist vera að eigi að útfæra á kontór úti í bæ varðandi fjármögnun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ég vil hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir það með hvaða hætti hann hefur tjáð sig um samgöngusáttmálann undanfarnar vikur. Það er til mikilla bóta að þeirri ótrúlegu þróun sem er að verða í kostnaði hans sé mætt af festu. Síðan sjáum við til viðbótar þessar gríðarháu kröfur sem eru að koma til meðlagsgreiðslna til sveitarfélaganna úr ríkissjóði, þeirra krafna sem þar eru uppi sem fara í hartnær 5 milljarða á ári, ef ég man tölurnar rétt. Við þurfum að rifja það upp að forsenda laga um Betri samgöngur ohf., eða þeirra laga sem grundvalla stofnun þess félags, var að ríkissjóður kæmi ekki að rekstri borgarlínu. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp því að það virðast allir eða alla vega flestir vera búnir að gleyma því.

Það má vel vera að það sé skynsamlegt og réttlætanlegt að ríkissjóður nálgist almenningssamgöngur með öðrum hætti en verið hefur. En það verður þá að gerast með einhverjum heildstæðum, ígrunduðum hætti sem þingið hefur aðkomu að í stað þess, eins og við urðum vitni að hér fyrir ekki löngu síðan þegar samningur sem hafði verið í gildi frá 2011, ef ég man rétt, um milljarð á ári úr ríkissjóði inn í Strætó bs. til stuðnings almenningssamgöngum, virtist vera framlengdur þegar hann rann út án þess að hann væri ræddur nokkurs staðar þannig að tök væru á. Ég get alla vega sagt hvað sjálfan mig varðar að ef það var rætt hér í þinginu þá hef ég misst af þeirri umræðu.

Ég bara vona að það sé að renna af mönnum í samhengi við málefni samgöngusáttmálans. Við höfum séð það birtast alveg frá því að hann var undirritaður að það er þvælst með öllum tiltækum ráðum fyrir skipulagsmálum stofnbrautaframkvæmdanna og ekkert kemst áfram nema það sem snýr að borgarlínuþættinum og síðan hjólastígunum auðvitað sem virðast nú hafa sprungið út í umfangi. En það er mál sem ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér og ætla ekki að verja tíma í að ræða hér.

Ég vona að þessi umræða um gjaldtöku af ökutækjum og umferð verði tekin heildstætt með það að sjónarmiði að kerfið verði eins einfalt og hægt er og að við náum utan um þetta svona að meginhluta í einni atrennu. Ég held að það sé til mikils að vinna að því að ef það á að gera þetta í svona bútasaumi, eins og stefnt hefur verið á, þá held ég að líka muni gæta mikils vantrausts því tilfinning þeirra sem nota vegina er almennt að skattlagning aksturs og ökutækja sé verulega há hér á landi. Það er stundum sagt: Er ekki bara sanngjarnt að þeir borgi sem nota? Það má alveg til sanns vegar færa. Eigum við þá ekki bara að láta það ganga yfir allt? Það er ekki sanngjarnt að það sé bara aksturinn sem menn nálgast með þeim hætti. Við skulum þá bara — hvernig ætla menn að rukka hjólreiðamennina sem nota hjólastígana? Hvernig ætla menn að rukka gangandi vegfarendur sem nota gangstéttir? Það þarf einhvern veginn að ná heildstæðara samtali um þessi mál að mínu mati.

Mig langar aðeins að koma inn á íbúðamarkaðinn. Ég treysti mér ekki alveg til að skilgreina skurðpunktinn varðandi hvenær sú þróun varð en mér hefur þótt séreignarstefnan eiga ansi mikið undir högg að sækja núna nokkuð lengi og mjög tryggilega innan þessa stjórnarsamstarfs sem nú er að fara inn í sitt sjöunda þing. Meira og minna allt sem fjallað er um með einum eða öðrum hætti snýr að hinum opinberu ríkisstyrktu húsnæðiskerfum. Það er miklu alvarlegra mál að mörgu leyti í gangi; fækkun íbúða í framleiðslu fyrir hinn almenna markað. Ef menn telja stöðuna snúna í dag þá verður hún orðin margfalt verri, alla vega umtalsvert verri, eftir eitt eða eitt og hálft ár ef fram heldur sem horfir.

Mér hefur komið verulega á óvart, og það er eitt af þeim atriðum sem rétt er að nefna hérna, ákvörðun um að lækka endurgreiðsluhlutfall fyrir vinnu á verkstað við íbúðabyggingar úr 100% niður í 60% og niður í 35%. Þetta var sett upp í 100% í gegnum Covid-faraldurinn en hafði verið 60% fram að því. Nú fer þetta niður í 35% á sama tíma og mjög margir aðrir þættir byggingarframkvæmda eru að hækka í verði. Það sem er kannski eiturpillan í því öllu er síðan lóðaskorturinn sem er viðvarandi fyrir þá sem eru á almenna markaðnum. Ég vil hvetja, í samhengi við fjárlögin og þann þrýsting sem húsnæðismarkaðurinn setur á verðbólguna, til þess að þessi mál verði skoðuð alveg sérstaklega með það fyrir augum að hinn almenni markaður, ekki hinn ríkisstyrkti, að það verði ekki köld hönd liggjandi yfir honum öllu lengur en nú er því sá lóðaskortur sem menn standa frammi fyrir er að hafa mjög alvarleg áhrif og ekki bara á framboðið heldur líka þau fyrirtæki sem munu á endanum skila þeim íbúðum sem verða til sölu næstu árin á markað.

Ég nefndi stuttlega í andsvari við ræðu hæstv. fjármálaráðherra í morgun, framsöguræðu ráðherra, að ég teldi þörf á því að það væri heildstæðara mat sem lægi fyrir á afleiddum áhrifum annarra laga hér inni heldur en fjárlaganna sem hafa bein áhrif á fyrirtæki og á endanum heimili landsins. Ég nefndi þetta sérstaklega í samhengi við að nú liggur fyrir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar tilkynning um frumvarp frá orkumálaráðherra þar sem á að innleiða hluta af þessu svokallaða „Fit for 55“-regluverki Evrópusambandsins í tengslum við siglingar, flutninga til og frá landinu, sem eru okkur nú jafn mikilvægir og við öll þekkjum. Skipafélögin hafa metið það sem svo að þetta væri kostnaður upp á 5–6 milljarða á ári. Sá kostnaður lendir á endanum hvergi nema á heimilum landsins, það er nú bara þannig.

Við horfum annars vegar á það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst sem miklu átaki, að ná fram hagræðingu upp á 17 milljarða. Síðan, bara eins og ekkert sé, kemur hins vegar viðbótarkostnaður á heimili landsins upp á 5–6 milljarða ef mat skipafélaganna heldur, sem er 35%, bara í þessum eina lið. Dálítið fellur af himnum ofan í þessum loftslagsæfingum ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins. Jafngildi 35% af hinum miklu hagræðingaraðgerðum kemur eins og ekkert sé í gegnum regluverk sem alla jafna væri kannski ekki einu sinni veitt mikil athygli á meðan það rynni í gegnum kerfið hér á þingi, enda svokallað innleiðingarmál, en þau fá oft minni athygli en ástæða væri til á grundvelli efnisatriða.

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því til að þetta mat ætti sér stað í tengslum við framlagningu þess tiltekna máls. Það má auðvitað til sanns vegar færa en við höfum líka orðið vitni að því undanfarin ár að kostnaðarmat frumvarpa er ekki vel unnið eða ígrundað. Ég minni nú bara á kostnaðarmat frumvarps um samræmda móttöku flóttamanna, sem fór eftir ár úr sirka 25 milljónum upp í sirka 47 eða 48. Það blasti við öllum að þetta væri tóm vitleysa. Hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem þá fór með málaflokkinn, svaraði því til hér í umræðu að kostnaðarauki á milli ára, nú man ég ekki grunntöluna, milli ársins í fyrra og hittiðfyrra, hafi verið rúmar 800 milljónir vegna þessa. Þannig að þessi kostnaðarmöt eru því miður allt of illa unnin og einhvern veginn virðast menn leyfa sér að setja þau fram með þeim hætti að það auðveldi að koma málinu í gegn. Svo er hægt að biðjast afsökunar á framúrkeyrslunni síðar. Við verðum að losna út úr þessu.

Ég held að það sé nauðsynlegt, í ljósi þess hversu mikil áhrif ríkisfjármálin hafa á bæði verðbólguþróunina og síðan auðvitað svona stemninguna sem myndast hér á nýju ári í tengslum við lausa kjarasamninga — ég get ekki annað en gagnrýnt það harðlega að það sé ekki áætlað að leggja fram frumvarp um breytta stöðu ríkissáttasemjara fyrr en á nýju ári. Það er mér algerlega óskiljanlegt að ætlun félagsmálaráðherra sé að geyma þetta frumvarp þangað til allir samningar eru orðnir lausir. Það er bara eins og það sé sérstakt markmið að lenda í vandræðum í þessum efnum. Ég vil bara hvetja hæstv. ríkisstjórn á næsta fundi, og hæstv. fjármálaráðherra, af því hann er hér í salnum, til að ýta á um það að þetta frumvarp verði sett framar í röðina. Það getur ekki verið mjög flókið. Það hlýtur að vera búið að vinna undirbúningsvinnuna. Það hlýtur að vera hægt að koma því fram í október en vera ekki að setja það fram í þinginu þegar allir samningar eru orðnir lausir og væntanlega að öllum líkindum harka farin að færast í mál á vinnumarkaði.

Það er ekki hægt annað en að nefna stuttlega útgjöld til útlendingamála. Þau eru nú orðin 15,3 milljarðar miðað við þessi fjárlög næsta árs. Við verðum að hafa í huga að þetta er auðvitað bara hluti af heildarkostnaðinum sem kemur til vegna þessa. Ég gagnrýndi það í ræðu minni við stefnuræðu forsætisráðherra í gær að það væri ekki ætlun dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um svokölluð lokuð búsetuúrræði fyrr en á nýju ári. Það var dálítið eins og það væri markmið í sjálfu sér að leggja það fram svo seint að það væri hægt að segja: Við náðum þessu ekki í gegn, við verðum að gera það aftur að ári. Hangi ríkisstjórnin þá eru engar líkur á að svona frumvarp klárist á kosningavetri. Það að setja þetta fram jafn seint og raun ber vitni, miðað við þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, bendir til þess að það fylgi ekki hugur máli hvað það varðar að ná tökum á ástandinu á landamærunum. Ég bara hvet ríkisstjórnina, sérstaklega fjármálaráðherra, sem þarf með einum eða öðrum hætti að punga út fyrir þessu, og hæstv. dómsmálaráðherra, sem heldur á málinu, til að flýta framlagningu þessa máls til að styðja við það að við náum hraðar tökum á ástandinu á landamærunum og þeirri stöðu sem komið hefur upp og þróast undanfarin ár heldur en annars yrði. Ég held að hvarfli ekki að nokkrum manni að svona mál klárist á kosningavetri verði ríkisstjórnin enn þá á lífi á þeim tímapunkti. Það að leggja málið ekki fram fyrr en á vorþingi held ég að þýði raunverulega að það sé ekki raunveruleg meining á bak við það að ná því fram. Eflaust er það til komið vegna þess hvernig samstarfsflokkar flokks dómsmálaráðherra eru stemmdir í málinu.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta þetta duga hér um fjárlögin við 1. umræðu. Ég mun fylgjast með málinu sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og treysti því, eins og ég sagði í byrjun ræðunnar, að það komi ekki viðlíka útgjaldasprenging á milli umræðna og varð hér í fyrra þegar sendiboðinn ofan úr fjármálaráðuneyti mætti með útgjaldaaukninguna. Ég held að rúm 95% af breytingunni sem var milli umræðna hafi verið frá fjármálaráðuneytinu sjálfu en ekki tillögur nefndarinnar og ég held að það sé ekki til bóta að láta okkur þingmenn standa og ræða fjárlög og frumvarp til fjárlaga sem tók í raun grundvallarbreytingum eins og gerðist í fyrra. En ég læt þetta duga í bili og vona að hv. fjárlaganefnd takist vel til með meðferð fjárlaganna.