154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mikið gleður það mig að það eru fleiri sem skilja ekki hvað er í gangi hérna. Þetta er nefnilega rosalega skrýtið. Þetta er svo handahófskennt einhvern veginn. Fyrst það er ekki hægt að ná neinni niðurstöðu um það hvað nákvæmlega þarf að gera — hérna er vandamál, dembum okkur í það, nei, nei, nei, því að það er vandamál hérna, dembum okkur í það, nei, nei, nei, gerum bara jafnan mínus yfir allt. Það er ekki lausn. Það er leti ef eitthvað er. Þess vegna, eins og ég segi, grípur maður til þeirra orða að klóra sér í hausnum og segja bara: Ég skil ekki hvað er í gangi hérna.

Ég hef dálítið mikinn áhuga á svona kerfispælingum og svoleiðis og mér finnst mjög áhugavert að horfa á Viðreisn og Samfylkinguna vera að tala um aukna skattheimtu og aukið aðhald. Frá mínum bæjardyrum séð getur þetta alveg virkað mjög vel saman. Efnahagskerfi sem slíkt, þessi hagvöxtur o.s.frv., efnahagskerfið á einu ári, hversu mikið af verðmætum er í gangi á einu ári, snýst í rauninni bara um það hvernig það fellur niður á fólk, hvernig þessi verðmæti dreifast á hina mismunandi atvinnugeira og fólk síðan þar undir og líka í rauninni bara fólk sem þarf þjónustu, eins og hv. þingmaður var að nefna hérna áðan varðandi biðlistana o.s.frv. Þar er kannski stærsta efnahagstæki Alþingis þegar allt kemur til alls. Hagkerfið fer sína leið en hvernig hagvöxturinn dreifist er eitthvað sem við höfum svona smá um að segja. Þegar auður er að safnast upp á fáar hendur þá skekkir það allan hinn hlutann af hagkerfinu. Þegar ekki er farið í að laga þá skekkju í kerfinu sem við höfum um dreifinguna á auðnum (Forseti hringir.) þá skemmir það allt annað þannig að ég sé einmitt að það væri hægt að auka skattheimtu þar til að auka aðhald annars staðar.