154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta var pínu ósanngjarnt hjá mér. Fjárlagavefurinn er tvímælalaust þó nokkuð mikil betrumbót frá því sem var þegar ég byrjaði í þessu. Ég held að það verði alveg að segjast. En betur má ef duga skal. Það er ýmislegt annað þarna í gangi og alveg rétt að þetta hefði mátt vera aðeins minni doðrantur. Þannig að já, allt í lagi, ég dreg það til baka að mestu leyti.

Annað hins vegar sem ég var að klóra mér í höfðinu yfir varðandi aðhaldsaðgerðirnar: Hv. þingmaður kom inn á að það eru vissulega ráðuneytin sem útfæra aðhaldsaðgerðirnar en eins og maður hefur séð þá koma stundum aðgerðir til að hafa áhrif á það. Ýmsar stofnanir eða ráðuneyti koma inn og segja: Nú ætlum við að selja flugvél — eða eitthvað svoleiðis sem við stökkvum þá upp til handa og fóta og björgum. Hvað ef það virkar ekki þannig heldur er lagt upp (Forseti hringir.) með ákveðna fjárheimild til fjárlaga og svo er þessu bætt inn eftir á til þess að fá meira? (Forseti hringir.) Maður hefur alveg heyrt svona trikk í bókinni vera notuð. (Forseti hringir.) Hversu aðgengilegt er það fyrir þingið að nálgast hvort svona sé í gangi eða ekki?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill láta þingmenn vita að klukkan í borðinu er ekki að virka en við erum að reyna að gera þetta þrátt fyrir það.)