154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:45]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði hv. þingmann segja hér í ræðu sinni að það væri ekki verið að fjárfesta í nýsköpun. Ég spyr hreinlega: Hvar hefur hv. þingmaður verið síðustu ár? Hefur hv. þingmaður ekki fylgst með þeirri umbyltingu sem hefur átt sér stað í nýsköpunar- og þekkingargeiranum á Íslandi undanfarin ár? Framlög til rannsókna, nýsköpunar og þekkingarsetra verða 27 milljarðar á næsta ári, 27 milljarðar. Við erum að tala um stórkostlega aukningu á síðustu árum, aukningu sem á rætur að rekja til nýsköpunarstefnu sem stjórnvöld, þessi ríkisstjórn, komu á fót, vísisjóða eins og Kríu og Lóu, sem breytir allri aðkomu og regluverki í kringum nýsköpunarfyrirtæki og framþróun á þessu sviði. Hvar hefur hv. þingmaður eiginlega verið? Við skulum fara yfir það að nú er svo komið að ef þeir eru spurðir sem starfa í þessum geira, fjárfestar og frumkvöðlar, er allt á sömu leið og sagt er að Ísland sé að ná stórkostlegum árangri á þessu sviði og er eiginlega komið í röð fremstu þjóða í heiminum á þessu sviði hvað varðar framlag til nýsköpunar, sem er verulega mikið fagnaðarefni. Þetta skiptir máli og við skulum hafa umræðuna hér um fjárlög og fjárlagafrumvarpið á þessum nótum en ekki fara með slíka staðlausa stafi eins og hv. þingmaður var að gera.