154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að renna nokkuð létt yfir þessa punkta sem ég náði ekki að klára hérna í fyrri yfirferðinni. Það er kannski pínu samhengislaust miðað við fyrri ræðuna en fólk nær bara að tengja þarna á milli. Ég var að tala um það hvernig framsetningin á fjárlögunum er, hvernig þetta er stundum sett fram, eins og ég nefndi hérna í fyrri ræðu, með leyfi forseta: „ „Framfylgd verkefna í aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks – Forsætisráðuneytið – Innan ramma“. Þetta „innan ramma“ er alveg stórkostlegt fyrirbæri fjárlaga. Þetta er hluti af stefnumótun stjórnvalda. Þarna eru stjórnvöld, ríkisstjórnarflokkarnir, að segja: Þetta er það sem við viljum gera. Við viljum gera þessa aðgerð sem á að betrumbæta líf venjulegs fólks á einhvern hátt. Það eru settir fram mælikvarðar og alls konar svoleiðis um hvernig það verkefni á að þróast og hver niðurstaða þess á að vera og því um líkt og það á að vera kostnaðarmat á því líka. En það er alltaf sagt bara „innan ramma“. Það er þessi stóri fjárlagarammi sem eru einhverjir 1.000 milljarðar, heill hellingur, og innan þess ramma á að vinna þetta verkefni. En gallinn við það er að verkefnið kostar samt eitthvað en við höfum bara ekki hugmynd um hvað. Okkur er ekki sagt það. Okkur er bara sagt að þetta ráðuneyti hafi 1 milljarð til að gera ýmislegt á þessu ári og svo á næsta ári ætlar það að gera ýmislegt annað þannig að allt sem við ætlum að gera á næsta ári, það verður bara innan þess ramma. Við ætlum bara að gera það allt fyrir þennan milljarð sem við höfum til þess að stússast í því. En það hjálpar okkur þingmönnum hérna ekkert til að meta það. Bíddu, fyrirgefðu, þetta verkefni hérna sem kostar eitthvað, það var ekki sagt hver væri væntur árangur af því. Hver er væntur ábati af því? Ef það kostar 200 milljónir en ábatinn af því er rekstrarkostnaður til eilífðarnóns, þá eru ekki góðar rekstrarlegar forsendur til að fara í verkefnið. Það gæti verið einhver aukin þjónusta eða eitthvað því um líkt, nýtt lyf eða nýtt tæki eða eitthvað svoleiðis sem betrumbætir heilsu fólks o.s.frv. og þá væri það frábær niðurstaða. Það væri ábatinn sem við myndum meta á móti peningalegum rekstri sem við myndum væntanlega segja já við. En ef það væri hitt og við værum ekki að fara að fá neitt sérstakt fyrir verkefnið nema bara rekstrarkostnað á hverju ári, þá myndum við væntanlega segja: Nei, þetta er ekkert rosalega gáfulegt.

Ég mælist til þess að þetta „innan ramma“ bull hætti, það verður að setja niður kostnaðinn á verkefnum og það verður að vera aðgengilegt fyrir okkur.

Ég ætlaði að nefna aðeins húsnæðismarkaðinn. Það hefur ekki verið komið of mikið inn á það. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom aðeins inn á það í sinni ræðu, sem var áhugavert að hlusta á. Húsnæðismálin eru enn þá, þrátt fyrir að þau séu minni hluti núna í rauninni af efnahagsvandanum sem við erum að glíma við, að skapa undirliggjandi þrýsting. Það er kæling á markaðnum eins og er, en það er alveg jafn margt fólk sem þarf á húsnæði að halda, það hefur ekkert breyst. Það er enn þá uppsöfnuð íbúðaþörf. Fólk getur ekki annað en búið hjá foreldrum sínum eða er með einhvers konar önnur úrræði sem verður bara reddað þangað til rætist eitthvað úr efnahagsástandinu eða húsnæðisástandinu þannig að það hafi efni á að koma sér í eigið húsnæði eða leiguhúsnæði.

Leigan er annað mál líka. Það er eitt sem fjármálaráðherra kom inn á í sinni ræðu hérna í dag, hann var að tala um vinnumarkaðinn og hvernig það væri ekki hlutverk stjórnvalda að koma að gerð kjarasamninga á almennum markaði, sem er vissulega almennt séð alveg rétt, nema hvað að það samræmist stefnu stjórnvalda hvort eð er, hluti af lífskjarasamningunum var í rauninni þannig. Það var gerður lífskjarasamningur við ríkisstjórnina varðandi samninga á almennum markaði, t.d. varðandi leigu og leiguhúsnæði, alls konar fyrirheit gefin um stuðning við leigufélög, um þak á leigu og ég veit ekki hvað. Ekkert af því hefur staðist. Þannig að jafnvel þó að stjórnvöld komi að almennum kjarasamningum og segi: Já, þetta eru plönin sem við ætluðum hvort eð er að gera, hentar það vel inn í þessa samninga sem þið eruð að gera til að ná einhverjum frið? Frábært, skrifum undir það — en við förum síðan ekkert eftir því. Ég sem hélt að Sjálfstæðismenn væru einmitt rosalega góðir í því að samningar skuli standa, það væri eitt af grunngildunum hjá þeim. En það á ekki við lífskjarasamninginn og það er mjög auðvelt að fletta því upp, það er í mjög góðum og sundurliðuðum númeruðum punktum sem hægt er að fara yfir og segja: Já, þetta var gert, já, nei, nei o.s.frv.

Salan á Íslandsbanka. Það er gert ráð fyrir því að Íslandsbanki verði seldur á næsta ári og það var líka gert ráð fyrir að hann yrði seldur á þessu ári. En það gerðist ekki hver svo sem ástæðan er fyrir því. Það er nákvæmlega sama ástæða fyrir því á næsta ári. Það er engin breyting að fara að gerast. Það er sama hvað hæstv. fjármálaráðherra gerir til að reyna að koma sér undan allri ábyrgð á þeirri sölu Íslandsbanka sem hefur gerst hingað til, það er ekkert traust til þess að hann sjái um söluna. Ég sé ekki að það sé eitthvert traust fyrir því einu sinni að einhver staðgengill komi og sjái um það, ekki einu sinni frá hinum flokkunum. Þessi ríkisstjórn er einfaldlega búin að klúðra því máli alveg upp í topp þannig að ég held að það sé hægt að gleyma því að af sölu Íslandsbanka verði á þessu kjörtímabili, því miður, staðan er eins og hún er.

Þá er það borgarlínan. Það hefur verið spjallað ansi mikið um hversu mikill aukakostnaður er af borgarlínunni. Þá dettur mér alltaf í hug: Man fólk ekki hvernig krónan virkar hérna? Hún verður alltaf verðlausari og verðlausari með hverjum mánuðinum sem líður þannig að eftir eitt ár þá þarf fleiri krónur til að kaupa sömu mjólkurfernuna. Það er ekkert rosalega flókið. Það er ekkert skrýtið með samning sem var gerður 2019, undirbúinn og væntanlega kostnaðarmetinn 2018, að krónutalan sem þarf til að klára framkvæmdirnar núna sé miklu hærri en krónutalan sem var þá. Að auki hefur hækkað meira í þessum iðnaði, byggingariðnaði eða hjá Vegagerðinni og öllu sem því fylgir, það hefur hækkað meira en almennt verðlag, alla vega samkvæmt því sem okkur er sagt, þannig að þarna er ýmislegt. Við fengum fund með ráðuneytinu þar sem þau voru tilkynna okkur einmitt um þennan mun, það munaði kannski 70 milljörðum, þ.e. verðlagsuppfærslur og svoleiðis sem útskýrðu hækkun úr 120 milljörðum upp í 160–170 milljarða. Það voru verðlagsbreytingarnar þannig að á sama verðlagi værum við á þeim stað en svo væru kannski 60–70 milljarðar í viðbót sem útskýrast af ýmsu öðru. Það er ákveðið vandamál varðandi það hversu stutt á veg framkvæmdir voru komnar. Svo þegar fólk fer enn lengra og segir enn stærri tölur þá er það vegna þess að í upprunalegum áætlunum voru kannski mislæg gatnamót sem var síðan breytt í stokk sem kostar miklu meira. Þetta er ákveðið vandamál sem við þurfum að passa upp á. Við þurfum að passa það að við séum að bera saman epli og epli, höfum sömu forsendur miðað við núverandi stöðu, taka þá út stokkinn og miða við mislægu gatnamótin ef við ætlum að bera saman upphæðirnar því annars er ekki verið að bera saman sömu hlutina. En svo er alltaf spurning þegar verið er að taka þær ákvarðanir að uppfæra mislæg gatnamót yfir í stokk, hver var spurður. Var sá aðili sem samþykkir fjárheimildirnar spurður um það? Hver getur tekið ákvörðun um að breyta hönnuninni eða framkvæmdinni á þann hátt og sagt: Ég ætla að nota dýrari útgáfuna? Það er eitthvert ferli sem við verðum að laga og gera betur ef það er ekki alveg skýrt að það virkar ekki þannig. Ef það virkar ekki þannig þá er ekki búið að samþykkja í rauninni einhvern stokk þar sem áttu að vera mislæg gatnamót. Það hefur ekki komið hingað inn á þing í samgönguáætlun og verið kvittað upp á að svoleiðis eigi það að virka. Þá erum við að tala um upphæðir sem eru bara ekki með í núverandi stöðu þangað til að þingið samþykkir annað.

Ég var ekki alveg búinn einu sinni en læt þetta duga.