154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:51]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Það er prýðileg hugmynd að Landsnet komi að því einmitt að tengja vegakerfið þannig að hægt sé að fara um á rafmagnsbíl um landið. Það eru gloppur — réttilega á bent. Ég held líka að við höfum báðir verið á þeim fundi Umhverfisstofnunar þar sem við sáum á grafi gríðarlega jákvæðan og merkilegan árangur Íslendinga í að rafbílavæðast. Það var glæsilegt á heildina litið þangað til Covid var afstaðið og bílaleigubílarnir, sá floti fór af stað. Þá hrundi nú sómi okkar dálítið því að þeir voru mestan part náttúrlega langfjölmennasti bílaherinn. Við vorum orðin ansi grá eftir grænkuna sem við hlutum meðan Íslendingar voru að aka um á sínum rafmagnsbílum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hvata sé þörf. Ég lít á milljarðinn sem fór til bílaleiganna til að reyna að fá þær inn á grænu línuna sem góða fjárfestingu. Ég er ansi hræddur um að það sé ekkert svo mikill munur á okkur og dýrunum. Það þarf sykurmola eða klapp á kollinn eða hvatningu til að breyta, til að kenna okkur ný trix. Hundurinn þarf einhvers konar verðlaun til að standa á tveimur fótum og stíga dans, eins og við sjáum á samfélagsmiðlunum í dag. Þannig að ég myndi gefa í þar. Ég myndi gefa í varðandi bílaleigurnar og telja þá vel varið peningum og ég myndi gjarnan vilja koma að því sem ég hef lagt fram í frumvarpi núna í annað og senn þriðja sinn að við séum ekki bara með hvata á jörðu og í lofti heldur á legi líka, þ.e. að við séum með hvata fyrir skipaflotann að taka upp rafrænt eldsneyti. (Forseti hringir.) Og við erum að fara í það með Stefáni Vagni Stefánssyni núna að hefja framleiðslu á rafeldsneyti.