154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað hefur gerst í sumar meðan við Alþingismenn vorum í fríi? Vextir hafa haldið áfram að hækka, verðbólgan er enn þá miklu meiri en í löndunum í kringum okkur og tikkaði upp í síðustu mælingu. Verðbólguvæntingar hafa nær ekkert þokast niður á við. Ráðherrar tala um efnahagsmálin eins og áhorfendur en ekki stjórnendur og sjálfur fjármálaráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hann er bara búinn að kúpla sig út úr glímunni við verðbólguna. „Ekki í verkahring ríkisfjármálanna,“ sagði hann, og biður þannig Seðlabankann um að hækka vexti enn þá meira. Þetta eru skilaboðin sem hæstv. ráðherra er að senda.

Ég er ekki viss um að það finnist einn einasti fjármálaráðherra í Evrópu sem talar og hegðar sér með þessum hætti. Og hver ber skaðann? Hver ber skaðann af þessu ábyrgðarleysi æðsta manns hagstjórnar í landinu? Jú, það eru heimilin og fyrirtækin, fólkið í landinu sem finnur fyrir því hvernig matarkarfan hækkar og afborganir af húsnæðislánum rjúka upp frá mánuði til mánuðar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru uppteknir við að hnakkrífast innbyrðis um hitt og þetta, hvalveiðar, útlendingamál, en það sem þau virðast vera alveg hjartanlega sammála um er þessi skaðlega efnahagsstefna, þetta ævintýralega skeytingarleysi gagnvart kjörum fólks.

Hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór vel yfir stóru myndina í ræðu sinni um fjárlögin hér í gærmorgun og ég hef ekki miklu við þann málflutning að bæta. Ég vil þó gera athugasemdir við það hvernig hæstv. fjármálaráðherra ræðir um ríkisfjármálin bæði hér í þingsal og í fjölmiðlum. Ég vil til að mynda benda á að þegar hæstv. fjármálaráðherra hreykir sér af afkomubata, að allt sé á fleygiferð og afkomubatinn sé meiri en áður var gert ráð fyrir, þá er hann í rauninni að hreykja sér af ofþöndu hagkerfi, monta sig af verðbólgufroðu. Seðlabankinn hefur hins vegar bent á að afkomubati ríkisins frá því að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir hefur verið minni en ætla hefði mátt út frá sögulegu sambandi efnahagsumsvifa og afkomu ríkisins. Þetta er ekki til marks um að haldið hafi verið vel á stjórn efnahagsmála og raunar er það svo að fjármálaráð, óháður sérfræðingahópur um opinber fjármál, orðar það sem svo að sýnd hafi verið „lausung í fjármálastjórn“. Það segir sig sjálft að þegar ríkisfjármálin gera minna til að sporna gegn verðbólgu þá þarf Seðlabankinn að gera meira og nú er svo komið vaxtastigið í landinu er auðvitað komið út fyrir allan þjófabálk. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það.

Gagnrýni okkar í Samfylkingunni á þessi fjárlög er samhljóða gagnrýni okkar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor. Hér vantar afgerandi aðgerðir til að verja heimilin í landinu fyrir áhrifum af hækkandi verðlagi og skörpum stýrivaxtahækkunum, aðgerðir sem þyrfti að sjálfsögðu að fjármagna með auknu aðhaldi, til að mynda á tekjuhlið ríkisfjármálanna. En ríkisstjórnin má ekki til þess hugsa. Stjórnarliðar sjá rautt, sjá gamaldags sósíalisma, sem er orðasambandið sem var notað hér í gær, og hlaðborð skattahækkana, sem er nú falleg myndlíking, þegar við í Samfylkingu hvetjum t.d. til þess að þjóðin fái aukna hlutdeild í auðlindarentunni í sjávarútvegi og að stigin verði varfærnisleg skref til jöfnunar á skattbyrði launa og fjármagns, þó það nú væri. Þá sjá stjórnarliðar rautt og gamaldags sósíalisma.

Við í Samfylkingu höfum kallað látlaust eftir því að ríkisstjórn og Alþingi sýni frumkvæði til að stuðla að friði á vinnumarkaði, fyrirbyggja ófrið á vinnumarkaði, koma í veg fyrir að verkalýðshreyfingin þurfi að sækja nær allar sínar kjarabætur gegnum launaliðinn. Þetta er meðal annars hægt að gera með því að efla tilfærslukerfin okkar, með leigubremsu og réttarbótum í þágu leigjenda, með auknum stuðningi við lág- og millitekjuheimili með miklar skuldir. Það er ekki að finna í þessum fjárlögum, og raunar er forseti ASÍ búinn að stíga fram í fjölmiðlum og segja að fjárlögin geri ekkert fyrir komandi kjarasamninga. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þau eru að leggja álögur á fjölskyldurnar í landinu. Það er tekjuhliðin hjá þeim. En það er lítið sem snýr að því að byggja undir kerfi sem við höfum kallað eftir varðandi kjaraviðræður. Ég sé ekki hvernig það er að gerast.“

Helstu pólitísku tíðindin í þessu frumvarpi eru þau að aðhaldsráðstafanir, afkomubætandi aðgerðir sem áður voru óútfærðar og var ekki ljóst hvernig myndu skiptast á gjalda- og tekjuhlið, eiga allar að lenda útgjaldamegin í anda hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég held að við þurfum aðeins að staldra við þetta.

Ríkisstjórnin er núna að reyna að selja fólkinu í landinu þá hugmynd að hér sé bara verið að skera niður einhvern lúxus efst í kerfinu en að það eigi að verja framlínuna og grunnþjónustuna. Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á miðvikudag, með leyfi forseta: „Grunnþjónustan verður varin og styrkt þar sem þörf er á.“ Og hæstv. fjármálaráðherra sagði í stefnuræðu sinni þegar hann talaði um 5 milljarða hagræðingu í launakostnaði: „Það mun því koma til talsverðrar fækkunar stöðugilda í ríkiskerfinu, bæði í gegnum starfsmannaveltu og eftir atvikum með uppsögnum. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntunar. Við teljum að þar sé ekkert svigrúm fyrir slíkar aðgerðir.“

Ég las svo frétt í gær á vef RÚV þar sem talað er um „17 milljarða aðhald í æðstu stjórnsýslu“. Þetta er auðvitað misskilningur, enda engin leið að ná fram 17 milljarða aðhaldi á málefnasviði sem telur innan við 3 milljarða að umfangi. Skoðum betur hér á eftir þetta 17 milljarða aðhald, en fyrst vil ég vekja athygli á alveg ævintýralegum tvískinnungi í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra um ríkisfjármálin.

Þegar Samfylkingin lagði til tekjuöflunaraðgerðir, aðhaldsaðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármála upp á 17 milljarða í umræðu um fjármálaáætlun í vor og líka í umræðu um fjárlög rétt fyrir síðustu jól, þá fannst hæstv. fjármálaráðherra varla taka því að tala um þær, þetta væri svo lítið að umfangi, bara 17 milljarðar. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þeir sem koma með tillögur um að gera eitthvað minna en 25 milljarða eru ekki að leggja neitt markvert til í baráttunni gegn verðbólgu. Þeir sem ekki geta lagt fram tillögur hér á þinginu um að auka aðhaldið og draga úr hallanum sem nemur svona hálfu prósenti af landsframleiðslu eru eiginlega ekki marktækir í umræðunni.“

Svo mörg voru þau orð fjármálaráðherra þann 9. júní 2023. Hvað gerist svo örfáum mánuðum seinna, þann 25. ágúst? Jú, þá rýkur hæstv. fjármálaráðherra til og heldur sérstakan blaðamannafund um að hann hafi ákveðið að ráðast í aðhaldsaðgerðir upp á 17 milljarða. Og þegar hv. þm. Kristrún Frostadóttir gagnrýnir útfærsluna á þessu aðhaldi hér í gær, gagnrýnir að hún eigi öll að koma útgjaldamegin og bitna á samneyslunni, þá segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er gert lítið úr því að hér sé komið fram með 17 milljarða hagræðingaraðgerðir. Þetta er jafngildi þess að segja: 17 milljarðar skipta bara engu máli í stóra samhengi hlutanna. Þetta er að tala með óábyrgum hætti um opinber fjármál.“

Hér er hæstv. fjármálaráðherra búinn að snúa sér í ótrúlegustu hringi og í raun bæði búinn að dæma sjálfan sig ómarktækan í umræðu um ríkisfjármál og skamma sjálfan sig fyrir að tala með óábyrgum hætti um opinber fjármál. Svona geta nú hlutirnir verið kúnstugir.

En að 17 milljörðunum sjálfum. Af rekstrargjöldum eru þetta 9,6 milljarðar á að spara í ríkiskerfinu og það er mjög upplýsandi tafla á bls. 132 í greinargerð fjárlagafrumvarpsins sem ég hvet þingmenn til að skoða. Þar kemur fram hvernig þetta aðhald skiptist niður á málaflokka. Tökum eftir að það er í heilbrigðismálum og menntamálum sem á að ná fram langmestum sparnaði, um 2 milljörðum í hvorum málaflokknum fyrir sig og þar af er helmingurinn í formi minni launakostnaðar, m.a. vegna fækkunar á starfsfólki. Það segir sig auðvitað sjálft að svona aðhald bitnar á grunnþjónustu. Þetta sést glöggt þegar maður skoðar einstök málefnasvið í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Tökum bara sem dæmi framhaldsskólastigið sem er mikið í umræðunni núna vegna áforma ráðherra um að klessa saman ólíkustu menntastofnunum á sérkennilegustu forsendum. Heildargjöld málefnasviðsins lækka um 506 milljónir á föstu verðlagi milli ára. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, var ómyrkur í máli um þessa fjársveltistefnu gagnvart framhaldsskólastiginu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hér í fyrradag, með leyfi forseta:

„Það er því miður ekki langt í að erfitt verður eða ókleift að auka við stuðning við skóla og nemendur sem þess þurfa. Við stöndum þannig frammi fyrir því að einhverjir skólar munu í náinni framtíð mögulega ekki geta sinnt lögbundinni þjónustu eða menntun vegna fjár- eða húsnæðisskorts, til að mynda til þess að mæta aukningu í starfs- og verknám.“

Það sem var þó kannski enn meira sláandi í hans ræðu var það sem á eftir kom:

„Fáist ekki nýtt fjármagn og ef við þurfum að velja milli farsældar og jöfnuðar meðal barna, og mæta þeim áskorunum sem ég nefndi, eða að viðhalda rótgrónum stofnunum þá þurfum við að forgangsraða í þágu barna.“

Hér birtist mjög skýrt hvernig hægri pólitík ríkisstjórnarinnar er að setja grunnþjónustuna í spennitreyju. Ráðherra kemur hér til Alþingis og segir: Annaðhvort þarf ég að fórna sjálfstæðri tilvist menntastofnana til að ná fram sparnaði eða við þurfum að gefa afslátt af farsæld barna.

Þetta er auðvitað bara birtingarmynd þess að það er ekki samstaða í ríkisstjórn um sterka samneyslu. Við erum með flokk í fjármálaráðuneytinu sem finnst til að mynda mikilvægara að halda fjármagnstekjusköttum lægri heldur en þeir eru á hinum Norðurlöndunum, lægri en þeir eru t.d. í Bretlandi og í flestum Evrópuríkjum, og að halda auðlindagjöldum lágum heldur en að styrkja grunnþjónustuna. Og Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn láta þetta bara yfir sig ganga.

Framsóknarflokkurinn er t.d. búinn að slaufa stóra kosningaloforðinu sínu frá 2021. Þá lofaði flokkurinn því að ríkið myndi, með leyfi forseta, „styðja við frístundir barna með 60.000 kr. greiðslu til allra barna á ári óháð efnahag“. Þau skrifuðu greinar þar sem tekin voru dæmi um að fyrir þriggja manna fjölskyldu yrðu þetta 180.000 kr. á ári óháð efnahag. Það væri kannski hægt að skilja það vegna þenslunnar í efnahagslífinu að fresta svona aðgerðum en hvorki fjárlagafrumvarp né fjármálaáætlun til næstu fimm ára gerir ráð fyrir þessum vaxtarstyrk, að þetta loforð verði efnt, og það þótt við séum núna einmitt í þeirri stöðu að æ fleiri heimili eiga erfitt með að ná endum saman. Samkvæmt nýlegri úttekt Vörðu –rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins getur þriðjungur einstæðra foreldra ekki greitt kostnað vegna tómstundastarfs barnanna sinna. Og eins og ég sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra:

„Það er óréttlátt að barn fái ekki að æfa íþróttir eða læra á hljóðfæri vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna.“

Við viljum ekki að samfélagið sé þannig og það þarf ekki að vera þannig.

Tölum meira um aðhaldið. Skoðum hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Þar lækka heildarútgjöldin um meira en 3 milljarða, þar af um 303 milljónir vegna sértækra aðhaldsráðstafana. Skoðum heilsugæsluþjónustuna í landinu, þar er aðhaldskrafa upp á 320 milljónir. Það er ekki einu sinni hægt að hlífa t.d. aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og framkvæmd hennar við útgjaldalækkun, við aðhaldi. Það á að nota þessa þjónustu sem eins konar „böffer“ í hagstjórnaraðgerðum. Fjárheimild til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar á starfssvæði Heilsugæslunnar á Akureyri er lækkuð um 650 milljónir, fjárheimild til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er lækkuð um 200 milljónir. Skoðum sjúkrahúsþjónustuna. Þar er verið að skella 723 milljóna aðhaldi á spítalana, þ.e. Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. Framkvæmdum við nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri er frestað. Og ef við skoðum almenna sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um land, þá er þar lækkun um 440 milljónir frá gildandi fjárlögum, m.a. 83 milljóna aðhaldskrafa og frestun á framkvæmdum við Sjúkrahúsið á Selfossi. Svona er verið að kroppa hér og þar í almannaþjónustuna og þar af leiðandi er auðvitað ekki rétt að það sé verið að hlífa algerlega framlínunni og grunnþjónustunni og bara verið að skera niður einhvern lúxus. Og eins og ég sagði hér áðan, það er ljóst þegar kemur að rekstrargjöldum þá á að ná fram mesta aðhaldinu í heilbrigðis- og menntamálum. Þetta er bara staðreynd þegar við skoðum greinargerðina og skoðum til að mynda þessa töflu sem ég minntist á hér áðan. Og þetta blasir auðvitað við þegar hæstv. barna- og menntamálaráðherra mætir hér lúpulegur fyrir þing og segist þurfa að velja á milli þess að geta staðið vörð um farsæld barna, lögbundin hlutverk gagnvart börnum annars vegar og sjálfstæðri tilvist rótgróinna menntastofnana hins vegar.

Ríkisstjórnin kýs með öðrum orðum að setja aðhaldið á samneysluna og almannaþjónustuna frekar en að ráðast í sanngjarna og skynsamlega tekjuöflun, hlaðborðið hans frænda míns, hv. þm. Teits Björns Einarssonar, eins og við í Samfylkingu höfum talað fyrir.

Virðulegi forseti. Ég mun fjalla sérstaklega um almannatryggingar og þróun á greiðslum Tryggingastofnunar milli ára í annarri ræðu, hvort sem það verður um fjárlögin hér á eftir eða í umræðum um fjárlagabandorminn í næstu viku. Hér vil ég láta nægja að segja það að það er algerlega óþolandi staða að ár eftir ár hækki ellilífeyrir og örorkulífeyrir minna en launavísitala og lágmarkslaun. Það er brot gegn lagafyrirmælum 62. gr. almannatryggingalaga, áður 69. gr. Þessa kjaragliðnun lífeyris og launa verður einfaldlega að stöðva. Ég ætla ekki að orðlengja þetta sérstaklega. Hvort sem litið er til heilbrigðismála, menntamála eða velferðarþjónustu í víðasta skilningi þess orðs, þá er alveg ljóst að næsta ríkisstjórn á ærin verkefni fyrir höndum.