154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:23]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrir þær umræður sem átt hafa sér stað um fjárlagafrumvarpið frá því að það var lagt fram. Í mínum huga eru fjárlög hvers árs eitt það mikilvægasta sem við erum að fjalla um hverju sinni því að þar erum við auðvitað að forgangsraða þeim fjármunum sem eru til skiptanna og erum þá að velta fyrir okkur í hvað við ætlum að eyða þessum peningum sem teknir eru inn í ríkissjóð í formi skatta. Það skiptir máli hvernig við ráðstöfum þeim og þar erum við kannski bara alla daga að velta fyrir okkur hvernig slík forgangsröðun á að vera.

Við erum hér í 1. umræðu um fjárlög og kannski ekki mikil mynd komin á hver hin endanlega þörf verður því að það á eftir að rýna þetta alveg niður í eindir í hverri nefnd fyrir sig, fá inn í nefndirnar gesti til að fjalla um það sem að þeim snýr og vonandi kemur eitthvað vitrænt út úr því. Þegar ég sá fjárlagafrumvarpið fyrst þá fannst mér nú svona áferðarlega eins og það liti nú ekkert sérlega illa út. Hallinn væri ekki nema 40 milljarðar og það væri kannski alveg hægt að sætta sig við slíkt þegar veltan væri einhverjir 1.500 milljarðar. Við værum þá með halla upp á kannski 2% og við værum ekkert alveg að fara í kaf út af því. En svo er auðvitað hægt að skoða ýmsa hluti. Hvað er það, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að tala um, sem hefur gert það að verkum að staðan er að batna? Er það vegna þess að við erum að búa til nýjar leiðir eða eru að verða hér einhverjar kerfisbreytingar sem eru að stuðla að auknum bata? Hvað er það? Svo þegar maður fer að skoða þetta þá sér maður auðvitað bara að mikil þensla í samfélaginu er að orsaka auknar tekjur ríkissjóðs og á sama tíma eru þessar auknu tekjur líka að valda ákveðnum vandamálum. Þrátt fyrir að búa til einhvern afkomubata fyrir ríkissjóð hefur aukin þensla þær afleiðingar í för með sér að hér ríkir mikil verðbólga og það hefur haft verulega neikvæð áhrif á mörg heimili í landinu en ekki bara heimili heldur fyrirtæki og jafnframt er auðvitað ríkissjóður að greiða margfalt hærri vexti en annars þyrfti. Þetta bítur í skottið hvert á öðru og veldur manni áhyggjum hafandi upplifað svona sveiflur upp og niður, ekki bara einu sinni heldur oft og mörgum sinnum. Það er eins og það sé bara innbyggt í íslenskt samfélag að við séum stundum uppi á toppnum og allir í svaka stuði og víman alveg að drepa okkur af því að það er svo gaman en svo förum við niður í lægðir til þess á milli. Þetta er ekki gott að búa við og erfitt fyrir fólk sem er kannski að eyða aleigu sinni í að fjárfesta í húsnæði, takandi lán, að sjá kannski eignamyndun sína bara hverfa vegna þess að verðbólga eykst hér langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Þegar maður skoðar þessar tölur, horfandi á ríkissjóð sem er að gjaldfæra vaxtagjöld upp á 110 milljarða — það má kannski deila um það hvort sú tala sé rétt, vegna þess að það eru lífeyrisskuldbindingar og eitt og annað í þessu. En ef maður tekur þetta bara svona gróft reiknað, 110 milljarðar á 1.700 milljarða skuld, þá væru það vextir upp á 6,5%. Ef við gætum nú bara komið vöxtunum niður um þriðjung, 2 prósentustig, þá værum við farin að sjá tugi milljarða bara þar, sem væri þá hægt að ráðstafa í eitthvað annað betra en að vera að greiða vexti. Það sama gildir auðvitað um fyrirtækin sem þurfa þá að velta auknum vaxtagreiðslum út í verðlag og það sama gildir um heimilin sem eru þá að berjast við að ná endum saman. Það eru sorglegar frásagnir af ungu fólki sem er að missa aleigu sína vegna þess að það ræður ekki við að greiða afborganir af lánum. Það sér séreignarsparnaðinn sinn sem var lagður inn í lánin hverfa vegna þess að lánið hefur vaxið langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Séreignarsparnaður unga fólksins okkar í dag er kominn í hendur fjármagnseigenda, unga fólksins sem hefði átt að safna þessum séreignarsparnaði til efri ára, ákvað að fjárfesta í húsnæði en er að tapa séreignarsparnaðinum sínum af því að verðbólgan er svo mikil. Þá veltir maður fyrir sér hvað er til ráða. Mig langar bara að vera hérna uppi í pontu og leggja eitthvað til af því að ég hlustaði á ansi frjóa umræðu í morgun um loftslagsmál og það gleður mig þegar maður sér og heyrir þingmenn tala í lausnum og horfa á möguleikana á því að reyna að betrumbæta eitthvað. Ég gat ekki betur heyrt á þeim þingmönnum sem tóku þátt í þeirri umræðu en að það væri bara fullt af hugmyndum sem hægt væri að fara í að skoða sem gætu orðið til góðs.

Hér töluðu menn líka um milljón manna Ísland. Það er kannski eitthvað sem við þurfum að horfa til, að okkur sem þjóð er að fjölga og við þurfum að laga okkur að breyttum aðstæðum til framtíðar, hugsa ekki bara um það sem við ætlum að gera á morgun eða á eftir heldur hvernig við ætlum við að skilja við þetta samfélag til barnanna okkar. Ég er að verða gamall karl og það skiptir mig máli hvernig börnunum mínum og unga fólkinu mínu reiðir af, að það þurfi ekki alltaf að vera í sömu súpuskálinni og ég alla mína ævi. Það er kominn tími til að við förum að búa til umhverfi sem ungt fólk getur þrifist í. Það skiptir máli.

Við erum alltaf að tala um óstöðugleika. Mig langaði bara að nefna það hér að verðbólga verður ekki til af sjálfu sér. Verðbólga er mannanna verk. Við búum til verðbólgu með verðbreytingum. Ef það eru engar verðbreytingar þá verður engin verðbólga. Ef engir hlutir hækka þá eykst verðbólga ekki. Þetta er bara ekkert flóknara en það og þessu áttuðu menn sig á þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir 1990. Þá var búið að vera ástand svo áratugum skipti þar sem víxlverkanir launa og verðlags héldu áfram endalaust og endalaust. Við erum einhvern veginn komin í þessa stöðu núna. Verðvitund er að minnka, fólk áttar sig illa á því hvað er að gerast og við bara siglum einhvern veginn áfram. Það er auðvitað hinn bitri sannleikur í þessu.

Ég gagnrýndi það mjög í fyrra þegar fjárlög voru lögð fram með nánast vísitölubindingu á krónutölubreytingar vegna þess að ríkissjóður hafði reynt að horfa til 2,5% verðbólgumarkmiða Seðlabankans, að reyna að vinna að því að verðbólga færi ekki umfram þau markmið sem Seðlabankinn hafði sett. Einhvern veginn finnst mér að við eigum núna að fara að horfa til þeirra, að við tökum þátt í því, landsmenn allir; fyrirtæki, launþegahreyfingin, ríkissjóður, að koma verðbólgunni niður. Það er hægt að koma verðbólgunni niður. Við þurfum bara að ákveða það og við þurfum að vera saman í liði til að gera það. Sú breyting verður að núna á ekki að fara í vísitölubindingu krónutöluhækkana í fjárlagafrumvarpinu og það er vel. Núna á að gera þetta þannig að það á að leggja til 3,5% hækkun á krónutölubreytingum í fjárlagafrumvarpinu. Eigum við ekki bara að horfa á þá tölu, þjóðarsátt um 3,5%? Hvernig væri það, þjóðarsátt um 3,5%? Komum verðbólgunni niður í 3,5% á þessu ári, ekki einhver 6% eins og vænta má. Þetta getum við. Við þurfum bara að gera þetta. Við eigum hundruð milljarða í gjaldeyrisvarasjóði. Við getum fest gengið. Fyrirtæki geta auðvitað bundið sínar verðlagsbreytingar við 3,5%. Ríkissjóður og sveitarfélög geta bundið sínar hækkanir við 3,5% og launþegahreyfingin getur komið og sagt: Ef allir taka þátt þá getum við sammælst um að hækka laun um 3,5% þannig að við förum ekki yfir 3,5%. Þannig gætum við komið verðbólgunni niður nánast á augabragði eins og gert var í þjóðarsáttarsamningunum 1990. Það þjónar engum tilgangi að standa hér og gagnrýna hvert annað endalaust, drullandi á bakið á hvert öðru. Við þurfum að leggja lið í þessari baráttu til þess að ná þeirri stöðu sem við viljum að sé hér á Íslandi.

Það vita sjálfsagt flestir mína skoðun. Ég tel til framtíðar að það sé ekki hægt að byggja á þeim grunni sem nú er verið að byggja á og hef lengi verið þeirrar skoðunar. En á meðan mín ósk rætist ekki þá vil ég geta unnið að því og stuðlað að því að hér ríki einhver meiri stöðugleiki en ég hef verið að upplifa í gegnum tíðina. Það skiptir okkur máli, fyrir unga fólkið okkar, hvort það muni borga 3%–4% í vexti á þessu ári eða 7%. Þetta getur ráðið því hvort fólk haldi húsnæðinu sínu eða ekki, þannig að ég held að það sé nauðsynlegt núna — það þýðir ekki að koma hér eins og hæstv. fjármálaráðherra og segja: Aðilar vinnumarkaðarins verða bara að semja um kaup og kjör. Það gengur ekki. Þetta er bara þríliðað, það verða allir að leggja sitt af mörkum ef þetta á að ganga upp. Það öfunda okkur allir, alls staðar í heiminum, af þessu norræna vinnumarkaðsmódeli sem hefur gilt í Skandinavíu en ekki nema að litlum hluta hér. En oft og tíðum hefur þetta gengið, að ríkisvaldið, atvinnurekendur og launþegar hafi talað saman og komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu sem skiptir máli. Það skiptir máli hvaða skatta við erum að borga. Verðlagsbreytingarnar í fjárlagafrumvarpinu skipta máli. Verðlagsbreytingarnar í verslununum skipta máli. Allt þetta talar sama tungumálið og við þurfum að sammælast um að tala sama tungumálið og vera ekki alltaf í þessum umkenningaleik vegna þess að niðurstaðan er alltaf sú að við getum þetta ef við bara viljum þetta.