154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:37]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir sína ræðu og kannski sérstaklega seinni hluta hennar. Við hv. þingmaður höfum nú tekist á við ýmislegt saman, m.a. á sveitarstjórnarstiginu þegar kemur að þörf á aðhaldi. Um þetta frumvarp sem við ræðum hér eru sannarlega skiptar skoðanir en ástæðan fyrir að ég nefni aðallega seinni hluta ræðunnar er þessi samvinnutónn sem hv. þingmaður kemur með varðandi verðbólgu. Mér finnst hann mjög áhugaverður, mikilvægur. Ég held að ég geti tekið heils hugar undir það að það er ekki skynsamlegt að hér séu allir að skylmast og raunverulega enginn að horfa í sömu átt eða ganga í takt. Komandi kjarasamningar eru okkur gríðarlega mikilvægir til að ná stöðugleika, ná niður verðbólgu og vissulega held ég að ríkisvaldið hafi þar hlutverk. Við getum síðan velt fyrir okkur hvort ríkið eigi að koma með einhverjar slíkar lausnir eða innkomu áður en kannski er búið að setjast niður. Formaður Samfylkingar nefndi hér við tilefni stefnuræðu forsætisráðherra einhvers konar fyrir fram kjarapakka og að fjárlagafrumvarpið myndi kannski gefa þann tón.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins setjist niður og reyni að ná sáttum og auðvitað kemur ríkisvaldið eitthvað þar að og síðan á lokametrunum eins og oft hefur þekkst, þá komi ríkisvaldið að til að tryggja það að samningar náist. Það er kannski mín fyrsta spurning hér, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) hvort það þyki ekki eðlilegt að menn setjist niður fyrst og reyna að ná sáttum og síðan komi ríkið að.