154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

áætlunarflug til Húsavíkur.

[15:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú er útlit fyrir að um mánaðamótin leggist af flug til og frá Húsavík, verði ekkert að gert. Þetta flug er þjóðhagslega hagkvæmt að mati nefndar sem vann skýrslu fyrir innviðaráðuneytið. Engu að síður hefur verkalýðsfélagið á staðnum, Framsýn, stutt þetta flug myndarlega en ríkissjóður ekki, þrátt fyrir að styðja ýmist annað flug. Flugið skiptir miklu máli, ekki bara fyrir Húsavík heldur nágrannabyggðir líka. Á þessu svæði hefur verið mikil uppbygging að undanförnu og er flugið nauðsynlegt til að sú uppbygging haldi áfram og ný bætist við, en einnig þurfa auðvitað íbúar svæðisins margir hverjir mjög á þessari þjónustu að halda, t.d. til að leita sér lækninga á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík þar sem heilbrigðisþjónustunni hefur meira og minna verið þjappað saman á einn stað. Því hníga ýmis rök að því að réttlætanlegt sé fyrir ríkið að stíga þarna inn til að koma í veg fyrir tjón, til að koma í raun í veg fyrir meira efnahagslegt tjón sem ríkið ella sæti uppi með, því að það er alltaf dýrara að bæta tjónið en að koma í veg fyrir það. Byggðaráð Norðurþings hefur lagt til lausn um hvernig megi á átta mánuðum, með 15 millj. kr. ríkisstuðningi á mánuði í þessa átta mánuði, bjarga fluginu og gera það sjálfbært á nýjan leik. Þar með yrði flugið áfram liður í uppbyggingu, vexti og viðgangi verðmætasköpunar og framleiðslu á Húsavík og í nærsveitum og gæti áfram nýst íbúum svæðisins sem þurfa að leita sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki fullt tilefni til að bjarga beinu flugi til og frá Húsavík?