154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að vísa til þess að það stendur yfir vinna við að gera heildarkerfisbreytingu. Megininntakið í kerfisbreytingarvinnunni er að skapa einmitt þessa hvata sem hv. þingmaður er að kalla eftir þannig að það verði hvati til að bjarga sér sjálfur og ég hef þá trú að lög og reglur um þetta efni séu best smíðuð þegar við tryggjum að fólk hafi stuðning frá stjórnvöldum til þess að bjarga sér sjálft þegar það getur, að hjálpa fólki til sjálfshjálpar á að vera tilgangur laganna. En við getum auðvitað ekki rætt um hóp öryrkja sem einhvern einsleitan hóp í þessu samhengi, gríðarlega fjölbreyttur og fjölmennur hópur sem er með ólíkar þarfir. En fyrir þann hluta hópsins sem hefur möguleika á að afla sér eigin tekna þá eigum við að sjálfsögðu að hvetja til þess.