154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

4. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að fæst af okkar málum koma hingað inn í sal til atkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður ætti líka að vita að þegar einhver flokkur gerir eitthvert frumvarp eða þingsályktunartillögu sem er ekki 100% alveg eins og viðkomandi vildi hafa hana erum við samt sem áður í prinsippinu oft með engu að síður til að sýna ákveðinn stuðning og samhygð. Í þessu tilviki finnst mér þessi þingsályktunartillaga ekki vera bara hvað sem er. Við erum að tala um lágmarksframfærslu fyrir fátækasta fólkið í landinu. Þetta er forgangsmál Flokks fólksins. Þetta er fyrsta þingmál Flokks fólksins á þessu löggjafarþingi sem við erum að mæla fyrir. Mér finnst þetta vera grundvallarmál fyrir fátækasta fólkið í landinu. Ég ætla ekkert að efast um að hv. þingmaður og Píratar, eins og þeir hafa venjulega sýnt, séu viljugir til þess að hjálpa þeim sem eiga bágt. Þess vegna hefði mér þótt enn vænna um að finna stuðninginn. Eins og hv. þingmaður veit er alltaf betra að hafa stuðninginn. Þó að við orðum ályktanir okkar og frumvörp ekki nákvæmlega eins og næsti þingflokkur vildi hafa það er gott að finna stuðninginn. Það hvetur okkur frekar til dáða heldur en hitt, að finna það að við erum ein einhvers staðar úti á rúmsjó að reyna að róa í land að einhverju sem öllum virðist vera sama um. Þannig upplifir maður það þegar enginn einasti þingmaður sér ástæðu til þess að koma hér á 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, sér í lagi þegar það mun ekki kostað ríkissjóð eina einustu krónu.