154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að könnun Maskínu sem var svo skýr: Það eru allir flokkar sem að meiri hluta styðja það, og drjúgur meiri hluti, að halda áfram og leyfa þjóðinni að kjósa, treysta þjóðinni til að fá að kjósa. Það eru bara tveir flokkar þar sem er minni hluti, en samt með meiri hluta yfir 40%. Það eru yfir 40% Sjálfstæðismanna sem styðja það að leyfa þjóðinni að kjósa um framhaldið. Samt á ekki að taka tillit til þessa. Það er sem sagt þannig núna í augum Sjálfstæðisþingmanna að þjóðin má ekki kjósa um neitt nema um það sem er þeim þóknanlegt. Ég hef heyrt þetta svolítið, þjóðin má heldur ekki kjósa um neitt sem meiri hluti þingsins vill ekki kjósa um. Af því að hér eru Brexit-sinnar sem ég horfi á þá hefði til að mynda, ef við horfum til Englands, með sömu aðferðafræði sú þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi aldrei orðið — og hún hefði reyndar betur aldrei orðið. En það segir m.a. þetta: Af hverju er ítrekað ekki hægt að bera virðingu fyrir þeim vilja sem birtist með skýrum hætti? (BH: Sko …) — Já, í vilja þjóðarinnar með því að fá að kjósa um þetta mál. Þegar við horfum framan í fjölskyldu sem er að borga hér vexti sem eru þrefalt hærri en hjá samanburðarríkjum okkar í Evrópusambandinu og á Norðurlöndunum … (Gripið fram í.) — í samanburðarríkjum okkar á Norðurlöndunum. Og ef hv. þingmaður vill fara í eitthvað annað þá skal ég líka tala um og benda á samanburðarríki í vöxtum sem er bara Rússland. Við erum komin með svipaða vexti og rússneska rúblan, ef hv. þingmaður vill fara þangað. (Forseti hringir.)

Við skuldum þjóðinni það að leyfa henni að hafa valkosti, leyfa henni að ákveða sjálf (Forseti hringir.) um eigin framtíð en ekki að það verði alltaf gömlu íhaldsflokkarnir með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar sem stoppa þetta mikilvæga mál.