154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[15:40]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri. Flutningsmenn tillögunnar eru, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra, í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra, að undirbúa og leggja fram frumvarp sem auðveldar og hvetur til ættliðaskipta og nýliðunar í búskap, þar sem mælt verði fyrir um skattalega hvata fyrir kaupendur bújarða til að halda áfram búskap á bújörð og lagaákvæði um húsnæðisstuðning og annan sambærilegan félagslegan stuðning sem hið opinbera veitir aðlöguð bújörðum. Horft verði til regluverks í Þýskalandi þar sem heimilt er að ráðstafa jörð til lögerfingja án greiðslu, í því skyni að halda ákveðnum svæðum í landbúnaðarrekstri, en tekjuskattskvöð virkjast ef viðkomandi hættir búskap. Tilgangurinn er að halda ákveðnum svæðum í landbúnaðarrekstri og tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.“

Ég hef áður flutt þessa tillögu og er hún með smávægilegum breytingum að þessu sinni. Hún var flutt á 151. löggjafarþingi og 153. löggjafarþingi.

Með þessari þingsályktunartillögu er sem sagt lagt til að innviðaráðherra, í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra, verði gert að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að jarðeigendum verði heimilt með einföldum hætti að ráðstafa jörð sinni milli ættliða. Markmið tillögunnar er að treysta búrekstur í landinu og að gera ábúendum jarða auðveldara að ráðstafa jörð innan ættar. Talsverð umræða er um vanda við kynslóðaskipti og nýliðun í búskap. Núverandi samningar við bændur bera með sér að sá vandi hefur að nokkru verið viðurkenndur, með úrræðum til að styðja við nýliða. Allt eins mætti horfa til kynslóðarinnar sem er að láta af búskap og láta úrræðin vinna með markmiðum samninga bænda og ríkis. Eldri kynslóðir hafa yfirleitt lakan lífeyrisrétt. Lengi framan af voru reglur með þeim hætti að bændur gátu ekki safnað sér lífeyrisréttindum í samræmi við umsvif síns búskapar. Á margan hátt er fullt eins mikilvægt og vænlegt til árangurs að horfa til þess að auðvelda kynslóðaskiptin með úrræðum fyrir þann sem lætur af búskap.

Mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu er óumdeilt. Lýtur það ekki síst að fæðuöryggi þjóðarinnar. Innan fárra ára, eða árið 2030, þarf að auka matvælaframleiðslu um 40% til þess að mæta aukinni fólksfjölgun. Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi að fyrir tveimur árum kom út skýrsla um fæðuöryggi á Íslandi. Skýrslan var gefin út af Landbúnaðarháskóla Íslands og unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Skýrsla þessi er vel unnin en hefði að mínum dómi mátt fá meiri athygli. Eftir efnahagshrunið 2008 vöknuðu spurningar um fæðuöryggi þjóðarinnar. Í ályktun sem samþykkt var á búnaðarþingi árið 2009 segir m.a.:

„[Þ]egar efnahagsörðugleikar dynja yfir hugsa einstakar þjóðir fyrst og fremst um að tryggja sínum eigin þegnum mat. […] Ekki er því alltaf hægt að treysta á að unnt sé að flytja inn matvæli eða aðföng til matvælaframleiðslu.“

Það getur verið mismunandi milli þjóða hvernig best er að tryggja fæðuöryggi þeirra á óvissutímum. Mikilvægt er að eiga kost á að auka innlenda framleiðslu eftir þörfum. Veiki hlekkurinn í fæðuöryggi Íslendinga er hversu háð við erum innfluttum matvælum og aðföngum til innlendrar matvælaframleiðslu. Þó að núverandi staða sé góð er óvíst um framvinduna ef upp kæmu fordæmalausar aðstæður sem hindruðu á einhvern hátt innflutning og greið viðskipti milli landa. Ísland er í þeirri stöðu að geta framleitt fæðu langt umfram það sem þarf til að hafa fullt fæðuöryggi en er engu að síður meðal þeirra landa sem flytja inn hvað hæst hlutfall af sinni fæðu. Ísland hefur auðlindirnar til að standa vel að vígi varðandi framleiðslu búfjárafurða með grasbítum og grænmetisrækt og með nýtingu innlendra orkugjafa. Við getum bætt í varðandi framleiðslu á korni, bæði fyrir búfé og til manneldis, og ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á að auka kornrækt í landinu.

Þegar allt gengur eins og í sögu er auðvelt að gleyma öllum varúðarráðstöfunum. Á tímum heimsfaraldurs eins og Covid-19 er ýmislegt hægt að læra. Allar greinar fæðuframleiðslu á Íslandi eiga það sammerkt að þær byggja á þekkingu sem er til staðar í landinu. Mannauðurinn í landbúnaði er það sem skiptir höfuðmáli. Án hans verður engin landbúnaðarframleiðsla og engin matvælaframleiðsla á Íslandi. Ef nýliðun í landbúnaði er ekki nægileg til að mæta aukinni fólksfjölgun í landinu erum við komin á hættulega braut.

Herra forseti. Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að eðlileg nýliðun eigi sér stað í landbúnaði og þessi tillaga gengur út á það að farið verði í þá vinnu að færa í lög hvata fyrir einstaklinga til að stofna til eða viðhalda landbúnaðarrekstri. Það er nú þannig, herra forseti, að nýliðun í landbúnaði er langt frá því að vera nægileg til að standa undir þeirri aukningu sem við þurfum til að geta staðið við það að framleiða hér matvæli fyrir komandi kynslóðir og þá fólksfjölgun sem við stöndum frammi fyrir. Það er nauðsynlegt að færa í lög þessa hvata fyrir einstaklinga til að stofna til eða viðhalda landbúnaðarrekstri, m.a. í gegnum húsnæðisstuðningskerfi og skattalöggjöfina.

Til þess að tryggja nýliðun í landbúnaði er einnig mikilvægt að ungir bændur eigi þess kost að eignast jörð eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði. Oft er það vilji þeirra sem eignast jörðina að henni verði ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskap á henni. Það getur hins vegar verið verulegum vandkvæðum bundið að ráðstafa slíkum jörðum til yngri kynslóða án þess að slíkt stofni til íþyngjandi skulda fyrir viðkomandi. Verðmæti bújarða hefur í mörgum tilvikum aukist verulega vegna uppbyggingar á þeim undanfarin ár og því getur reynst erfitt fyrir næstu kynslóðir að kaupa þær af foreldrum eða með erfingjum. Vegna þessa hafa margir þurft að búa við þunga skuldabyrði vegna kaupanna eða þurft að hverfa frá jörðunum og búskapur á þeim lagst niður.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um ættaróðal og erfðaábúð frá árinu 1943 segir að markmið laganna sé að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgir því að ungir bændur kaupi jarðir af foreldrum sínum eða með erfingjum. Sú skuldabyrði olli því að kaupendur gátu oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Eftir brottfall ákvæða um heimild til stofnunar nýrra ættaróðala úr jarðalögum er staðan alls ekki ólík. Því er tilefni til þess að farið verði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest og að ungir bændur geti tekið við búum af eldri kynslóðum án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði.

Eins og ég sagði fyrr, herra forseti, þá segi ég það að lokum að þessi tillaga gengur út á að farið verði í þá vinnu að færa í lög hvata fyrir einstaklinga til að stofna til eða viðhalda landbúnaðarrekstri og það er hagur okkar allra.